Ísdagurinn mikli í Hveragerði

Frá ísdeginum á síðasta ári.
Frá ísdeginum á síðasta ári.

Í dag, laugardag er hinn árlegi Ísdagur Kjörís sem haldinn er í tengslum við bæjarhátíðina Blómstrandi daga í Hveragerði.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Kjörís heldur upp á 40 ára afmæli sitt í ár og því hafi verið lagt enn meira í dagskrá Ísdagsins en venja hefur verið. Ísdagurinn hefst kl.13:30 þegar opnað verður fyrir ísinn. Sérstök ísleiðsla verður lögð beint frá verksmiðjunni og út á plan og mun fólk geta borðað eins mikinn ís og það getur í sig látið.
 
Fjölbreytt skemmtiatriði í boði fyrir börn og fullorðna

Ísdagurinn fer fram á bílaplani Kjörís og hefst dagskrá á sviði klukkan 14:00 en kynnar eru hinir landsþekktu Gunni og Felix. Hljómsveitirnar Hitakútur, Húrrígúrrí og Harasystur, sem koma allar frá Hveragerði, verða með tónlistaratriði en lögð var áhersla á að fá heimamenn til að sjá um stóran hluta skemmtiatriðanna.

Leikarar úr söngleiknum Söngvaseið munu svo syngja nokkur lög úr söngleiknum sem slegið hefur svo rækilega í gegn í Borgarleikhúsinu. Rúsínan í pylsuendanum verður síðan flutningur Magnúsar Þórs Sigmundssonar á laginu „Þú ert mér allt“ sem hljómað hefur í afmælisauglýsingu Kjörís í sjónvarpinu í vor og sumar, en Magnús Þór samdi lagið.

Fram kemur að leynd hefur hvílt yfir því hver syngur lagið en   í dag verði  hulunni svipt af söngkonunni og hún stígur á svið með Magnúsi Þór þegar lagið verður flutt í fyrsta sinn fyrir framan áhorfendur.
 
Ólíkindabrögð

Þá segir að árviss viðburður og einn af hápunktum Ísdagsins sé þegar fólki gefst kostur á að bragða á ís með afar óvenjulegu innihaldi, en starfsfólk Kjörís hafi undanfarið framið ýmis töfrabrögð á ísframleiðslunni – svokölluð ólíkindabrögð.

„Meðal þeirra óvenjulegu bragðtegunda sem í boði verða á Ísdeginum í ár eru: Kreppuís (ís með grjónagraut), túnfiskís, engiferís, kókósbolluís, pistasíuís, marsipanís, bjórís (Skjálfti), ORA-ís (ís með grænum baunum) og svo “Einn með öllu”(sem er með öllu því sama og maður fær með pylsunni á Bæjarins bestu). Gestum verður boðið að taka þátt í skemmtilegum smökkunarleik þar sem vegleg ísverðlaun verða í boði,“ segir í tilkynningunni.
 
Loks segir að tilvalið fyrir fjölskylduna að gera sér ferð til Hveragerðis í dag. Strætó leggur af stað frá Mjódd og kostar farið þrjá strætómiða. Upplýsingar um brottfarartíma er að finna á www.straeto.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert