Deildu um ábyrgð á Icesave

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Reuters

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, og Nicholas Macpherson, ráðuneytisstjóri breska fjármálaráðuneytisins, deildu hart um það í október 2008 hvort breska ríkið ætti að ábyrgjast innistæður á Icesave-reikningum í Bretlandi.

Þetta kemur fram í bréfum, sem Frjálsi demókrataflokkurinn hefur fengið í hendur og sýnt blaðinu The Times. 

Macpherson lýsti yfir miklum efasemdum um að bresk stjórnvöld ættu að nota opinbert fé til að greiða eigendum breskra Icesave-reikninga það fé sem þeir höfðu lagt inn á reikningana og sagði óljóst hvort breska ríkið myndi endurheimta þessa peninga. Englandsbanki lýsti sömu skoðun en Darling tók þá ákvörðun að tryggja innistæðurnar og skilgreina það sem lán til Íslands.    

The Times segir, að Macpherson virðist hafa skrifað bréf sitt eftir fund með Darling 8. október 2008 til að staðfesta andstöðu sína við láni til Íslands. Segir hann þar að Englandsbanki sé sömu skoðunar en breska fjármálaeftirlitið taki undir skoðun Darling um að nauðsynlegt sé að tryggja innistæðurnar til að tryggja stöðugleika á breskum fjármálamarkaði.

Sagði ráðuneytisstjórinn, að umrætt lán væri ekki góð fjárfesting fyrir breska skattgreiðendur og gæfi jafnframt til kynna, að bresk stjórnvöld myndu tryggja mun hærri upphæð ef aðrir alþjóðlegir bankar, með starfsemi í Bretlandi, féllu í framtíðinni. 

Þá varaði Macpherson við því, að ekki væri víst að íslensk stjórnvöld væru fús að tryggja að Bretar fengju umrædda upphæð endurgreidda. 

Darling svaraði sama dag og sagðist myndu veita íslenskum stjórnvöldum lánið. Hafi hann tekið með í reikninginn þann trúnaðarbrest sem orðið hefði á milli bankakerfisins og viðskiptavina þess þegar hann tók þessa ákvörðun.

Þá segir hann, að fyrir liggi skrifleg staðfesting íslenskra stjórnvalda um að þau muni standa við skuldbindingar sínar í samræmi við evrópskar reglur um innistæðutryggingar.   

Frétt The Times

Leiðari í viðskiptablaði The Times

mbl.is

Bloggað um fréttina