Ætla að sofa við Alþingishúsið

Mótmælendur ætla að leggjast til svefns við Alþingishúsið.
Mótmælendur ætla að leggjast til svefns við Alþingishúsið. Þorkell Þorkelsson

„Við erum um það bil þrjátíu sem stöndum að þessu. Markmiðið er fyrst og fremst að senda skilaboð til stjórnvalda með táknrænum hætti,“ segir Steinar Immanúel Sörensson skartgripasmiður en hann er annar skipuleggjenda fyrirhugaðra mótmæla við Alþingishúsið aðfaranótt föstudags.

Ætlunin er að fjöldi fólks leggist til svefns í svefnpokum en ljóst má vera að kalt er orðið í veðri á þessum tíma sólarhrings í októberbyrjun.

„Heimilin í landinu eru í miklum vanda. Við erum tveir sem fengum hugmyndina að þessu. Við erum enn á því að reyna skuli að koma skilaboðum friðsamlega til stjórnvalda, þótt það virðist ganga erfiðlega oft á tíðum.“

- Má af þessu skilja að þið séuð ósátt við aðgerðir stjórnvalda?

„Já. Mér finnst hún algerlega hafa svikið kosningaloforð sín. Hún lofaði að vernda heimilin þegar hún tók við völdum. Ég tel að það eigi að fara í flata leiðréttingu á húsnæðislánum. Mér finnst einnig að það ætti að banna nauðungarsölur.“

- Hefur hópurinn, eða samtökin, nafn? 

„Hann heitir nú ekkert sérstakt. Þetta er hópur fólks sem er mikið í samskiptum á Fésbókinni. Við höfum kynnst í gegnum mótmæli.“

- Þú ert skráður til heimilis í Reykjanesbæ. Er þetta fólk eingöngu af Suðurnesjum?

„Nei. Þetta er fólk úr Reykjavík, Hafnarfirði og allsstaðar að. Við ætlum að mæta um miðnætti.“

- Hyggst hópurinn bíða þangað til þingmenn mæta í þinghúsið að morgni föstudags [er haustþing kemur saman eftir stutt hlé]?

„Það verður að ráðast. Við verðum væntanlega rekin í burtu ef við verðum fram eftir. Það má reikna með því.“

- Eruð þið að reyna að koma af stað nýrri Búsáhaldabyltingu?

„Því miður er ég hræddur um að ný friðsöm bylting sé varla möguleg. Ég held að það verði allt brjálað ef nauðungarsölurnar fara af stað,“ segir Steinar.

Steinar Immanúel Sörensson
Steinar Immanúel Sörensson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert