Kom hjónum til bjargar í Krossá

Krossá getur verið varasöm ef ekki er farið með gát.
Krossá getur verið varasöm ef ekki er farið með gát. mbl.is/Árni Sæberg

Bíll eldri hjóna festist í Krossá um helgina. Mbl.is hafði samband við einn tveggja manna sem komu hjónunum til bjargar. Maðurinn sem var á leið í Þórsmörk á laugardag varð vitni að því þegar bíllinn fór í Krossá, snerist þar og festist.

 „Ég kom þarna að og sé bílinn fara ofan í. Þau voru á bíl sem hentaði alls ekki við þessar aðstæður. Við árbakkann er skilti með neyðarnúmeri í Húsadal sem hægt er að hringja í ef hætta er á ferðum. Ég fer inn í skála og hringi niður í Húsadal þaðan sem kom aðstoð. Ég fór síðan út í ána og kom fólkinu út um glugga á bílnum. Þá hafði hjálp borist úr Húsadal og maðurinn þaðan kom til mín spotta.“

 Stóð ekki á sama er hann stóð í straumþungri ánni

Maðurinn sem vill ekki láta nafns síns getið segir að alltaf sé hætta þegar bíll festist í Krossá. „Það var svona miðlungs straumhart í ánni. Hjónunum var náttúrulega brugðið. Þetta var ekki þægileg lífsreynsla  og ég hef ekki mikinn áhuga á að standa í þessu aftur.“

 Þessi miskunnsami samverji viðurkennir að hafa ekki staðið á sama þegar hann stóð í ánni. „Ég var smeykur þegar ég var að vaða út í. Sjálfur missti ég fótanna á tímabili, svo mikill var straumurinn í ánni. Þar sem dýpst var náði áin mér upp í mitti.“

mbl.is