Leituðu með hundi á Litla-Hrauni í nótt

Leitað var að Matthíasi innan múra fangelsisins á Litla-Hrauni í …
Leitað var að Matthíasi innan múra fangelsisins á Litla-Hrauni í nótt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Leit hefur staðið að strokufanganum Matthíasi Mána Erlingssyni um allt Suðvesturland í fjóra daga. Í nótt var þó farið nær upprunanum, því gerð var ítarleg leit með hjálp leitarhunds innan múra fangelsisins á Litla-Hrauni.

Engar myndir náðust af Matthíasi Mána þegar hann fór yfir girðinguna, eins og talið er að hann hafi gert, þar sem bilun varð í öryggismyndavélakerfinu. Ekki var því hægt að útiloka að Matthías leyndist einhvers staðar í fangelsinu, en eftir leitina í nótt hefur verið gengið úr skugga um að svo er ekki.

Farið á stjá þegar fangarnir sváfu

„Það fóru lögreglumaður og fangavörður ásamt hundi og leituðu á öllum göngum og um allt útisvæðið um klukkan fjögur í nótt, þegar allir voru sofandi. Þetta var hluti af rannsókninni, við vorum þarna að útiloka ákveðna hluti,“ segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem stýrir leitinni. Leitað var að nóttu til svo að hægt væri að athafna sig með hundinn án þess að mannaferðir trufluðu leitina.

„Þá var allt komið í kyrrð, fangarnir í klefum og búið að vera þannig í dálítinn tíma þannig að það var ekkert sem ruglaði hundinn,“ segir Arnar. Ekki var farið inn í klefa annarra fanga, en ítarleg leit var gerð alls staðar annars staðar. Engar nýjar vísbendingar komu fram við leitina um hvarf Matthíasar. „Það kom ekkert bitastætt í ljós.“

Fáir þræðir sem hægt er að rekja

Leit lögreglu á suðvesturhorninu í dag hefur heldur engan árangur borið. Arnar segir Matthías um margt ólíkan öðrum strokuföngum sem reynsla er af. „Það sem sker sig úr miðað við það sem við þekkjum úr öðrum strokum er að þessi maður á í rauninni engan brotaferil, fyrir utan þetta einstaka mál og eitt í útlöndum. Hann er ekki í neinum tengslum við brotamenn og ekki við lögregluna heldur þannig að það eru færri til að rekja.“

Matthías mun heldur ekki eiga mikil fjölskyldutengsl hér á landi, en hann ólst að stórum hluta upp í Austurríki. Lögreglan veit ekki til þess að hann hafi haft samband við nokkurn mann og hvergi hefur heldur sést til hans. Lögreglan hefur því fátt að byggja á, en hvergi verður þó slegið af við leitina að sögn Arnars.

„Við höldum áfram og förum eftir þeim vísbendingum sem okkur berast til að reyna að þrengja hringinn.“

Matthías Máni Erlingsson
Matthías Máni Erlingsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert