Andlát: Baldur Óskarsson

Baldur Óskarsson.
Baldur Óskarsson.

Baldur Óskarsson, ljóðskáld, er látinn, 81 árs að aldri.

Baldur fæddist í Hafnarfirði 28. mars 1932, sonur hjónanna Óskars Eyjólfssonar, verkamanns, og Ingigerðar Þorsteinsdóttur. Fósturforeldrar hans voru hjónin Þorsteinn Þorsteinsson, bóndi á Ásmundarstöðum í Holtum, og Sigríður Ólafsdóttir, húsfreyja.

Baldur stundaði m.a. nám í spænskum bókmenntum og listasögu í Barcelona á Spáni. Hann var blaðamaður á Tímanum 1957-64 og starfaði síðar sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu. Hann var skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur 1965-73.

Baldur sendi frá sér ljóðabækur, skáldsögur og smásögur. Fyrsta verk hans var smásagnasafnið Hitabylgja sem kom út árið 1960. Þremur árum síðar kom út eftir hann skáldsagan Dagblað. Árið 1966 sendi hann frá sér sína fyrstu ljóðabók (Svefneyjar) og upp frá því einbeitti hann sér að ljóðagerð. Síðast kom út bókin Langtfrá öðrum grjótum, árið 2010.

Baldur fékkst einnig við ljóðaþýðingar og þýddi m.a. ljóð eftir Federico García Lorca. Hann skrifaði einnig talsvert um myndlist í bækur og tímarit, t.d. um myndlistarmanninn Jón Engilberts. Baldur hlaut verðlaun úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins árið 2011.

Eiginkona Baldurs var Gunnhildur Kristjánsdóttir. Þau skildu. Þau eignuðust þrjú börn, Sigrúnu, Árna og Magnús.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert