Slasaðist alvarlega í miðjum leik

Leik Breiðabliks og KR var frestað eftir um fjögurra mínútna leik í kvöld þegar Elfar Árni Aðalsteinsson, leikmaður Breiðabliks, lá óvígur á vellinum en hann lenti í samstuði við leikmann KR. Eftir lífgunaraðgerðir á vellinum var tilkynnt að Elfar væri kominn með eðlilegan púls. Elfar var fluttur með sjúkrabifreið á Landspítalann.

Leikmenn voru kallaðir af velli á meðan hlúð var að Elfari. Sjúkrabifreið var ekið út á völlinn og sló dauðaþögn á áhorfendur. „Menn eru lagstir á bæn hér í Kópavogi. Hér er alveg þögn,“ skrifaði blaðamaður mbl.is á Kópavogsvelli. „Ég skal viðurkenna það. Ég skelf.“

Fundað var um hvort halda ætti leiknum áfram og eftir fund með leikmönnum og þjálfurum var ákveðið að flauta leikinn af. „Leikmenn og þjálfarar treysta sér ekki í meira. Leikurinn hefur því verið flautaður af.“

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert