„Hvor er að ljúga?“

Þórir segir engar fastar verklagsreglur til um meðferð kynferðisbrotamála.
Þórir segir engar fastar verklagsreglur til um meðferð kynferðisbrotamála. mbl.is/Styrmir Kári

Ekkert í lögum stendur í vegi fyrir því að mál séu rannsökuð þó kæra liggi ekki fyrir. Þetta segir Þórir Ingvarsson, rannsóknarlögreglumaður í samtali við mbl.is. Hjalti Vigfússon, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar sem fram fer á morgun, vakti athygli lögreglu á því á Twitter í gær að mál vinkonu hans hefði ekki verið rannsakað þegar það var tilkynnt þar sem hún hafi ekki verið tilbúin til að kæra strax. Útfrá tísti Hjalta spunnust umræður milli hans og lögreglunnar sem vöktu nokkra athygli.

Frétt mbl.is: Lögreglan í Twitter-erjum

Í samtali við mbl.is segir Hjalti tíst lögreglunnar valda sér vonbrigðum, skilaboðin séu misvísandi og stangist á við reynslu hans af því samskiptum við lögreglumenn í kynferðisbrotamálum.

Tækifæri til kæru glatað

Vinkona Hjalta varð fyrir hópnauðgun og fylgdi Hjalti henni á neyðarmóttöku nokkrum klukkutímum síðar. Lögreglumaðurinn sem Hjalti og brotaþoli ræddu við á neyðarmóttöku sagðist ekkert geta aðhafst fyrr en hún kærði. Þegar Hjalti vakti máls á atvikinu á Twitter svaraði lögreglan því til að heimildir fyrir rannsókn án kæru væru sannarlega til staðar.

„Annað hvort eru þeir að ljúga á Twitter eða þá var lögreglumaðurinn sem ég talaði við ekki að vinna vinnuna sína. Það finnst mér mjög ólíklegt því að það var réttargæslumaður á staðnum þegar þetta átti sér stað og réttargæslumaðurinn talaði eins og það þyrfti að kæra, sem hefur alltaf verið minn skilningur,“ segir Hjalti.

Hann bendir á að brotaþoli sem hafi upplifað eitt mesta áfall lífs síns sé oft ekki í ástandi til að taka afstöðu um ákæru en að það þýði ekki að ekki sé hægt að rannsaka og undirbúa gögn sem gætu stutt við kæru síðar meir.

„Ef vinkona mín væri spurð í dag myndi hún vilja kæra. En núna er tækifærið glatað af því að þeir gátu ekki farið á staðinn og rannsaka málið eða vildu það ekki, eftir því hvor er að ljúga.“

Viðbrögðin vonbrigði

„Ég held að brotaþolar vilji 100 prósent að lögregla hafi heimild til að rannsaka mál áður en kæra er lögð fram og að samfélagið allt vilji það af því að við viljum ekki að nauðgarar gangi lausir,“ segir Hjalti.

Hann segir viðbrögð lögreglunnar á Twitter nokkur vonbrigði og að þó svo að hann efist ekki um að lögreglan taki oft vel á kynferðisbrotamálum sé ljóst að fara þurfi í gegnum hvernig hún ber sig að þegar slík mál koma inn á hennar borð.

„Hvort það þurfi hreinlega að búa þá til ef þeir eru ekki til þá er það sem við erum að kalla eftir.“

Eins og áður kom fram er Hjalti einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar. Hann segir auðvelt að fyllast vonleysi þegar maður sökkvir sér í málefni þolenda kynferðisofbeldis en að samstaðan sem myndist í kringum Druslugönguna gefi sér ómælda von.

„Þegar maður gengur þessa göngu finnur maður breytinguna í loftinu og veit að eitthvað er að gerast. Það er besta tilfinningin í heiminum og þess vegna þarf fólk að mæta í þessa göngu.“  

Engar fastar verklagsreglur

Þórir Ingvarsson, rannsóknarlögreglumaður, tekur skýrt fram að hann ræði ekki einstök mál við blaðamann frekar en á samfélagsmiðlum. Hann segir engu logið á Twitter aðgangi lögreglunnar og að ekkert í lögum standi í vegi fyrir því að mál séu rannsökuð þó svo að kæra liggi ekki fyrir. Lögreglan hafi skýra heimild til að halda áfram með rannsóknir.

„Ég held að það séu engar fastar verklagsreglur nema bara lögin um meðferð sakamála. Almennt séð er ekki til einhverskonar handbók eins og fólk virðist vera að kalla eftir. Það er erfitt að gera ráð fyrir öllum möguleikunum sem upp geta komið þannig að við getum ekki skilað einhverjum verklagsreglum.“

Þórir getur ekki tjáð sig um nákvæmlega um hvað fór úrskeiðis í máli fyrrnefnds brotaþola, vinkonu Hjalta. Hann segir að fara þurfi af nákvæmni ofan í saumanna á því hvað fór á milli brotaþola og lögreglumanns og til þess þurfi viðkomandi að snúa sér beint til lögreglu.

„Þá myndum við hitta manneskjuna og fara í gegnum málið með henni.“

Brotaþolar hafa ákvörðunarrétt

Þórir segir eftirfylgni fara eftir aðstæðum en að í öllum tilvikum sé haft samband við brotaþola, hvort sem er einum eða fáeinum dögum eftir tilkynningu, og hugur hans til kæru kannaður.

„Þess ber líka að geta að fæst mál koma á borð lögreglu þegar þau eru á því stigi að skammt sé frá því að þau áttu sér stað. Fleiri tilvik eru þannig að viðkomandi leitar á neyðarmóttöku, ekki er haft samband við lögreglu og viðkomandi ákveður að kæra annað hvort í beinu framhaldi eða síðar.“

Þórir segir mikilvægt að muna og virða að brotaþolar hafa rétt til að ákveða hvort þeir vilja tilkynna mál til lögreglu. Hann tekur fram að jafnvel í þeim tilvikum sem ekki eru tilkynnt til lögreglu sjái neyðarmóttaka um eftirfylgni og að boðið sé upp á aðstoð fagfólks á við sálfræðinga og lögfræðinga.

„Svo erum við líka mjög stolt af því að kynferðisbrotadeildin okkar er með sérvalið starfsfólk. Það er mikið lagt upp úr þjálfun, þetta er fólk sem sérhæfir sig í þessum málum og við leggjum mikið upp úr því að allt sé tipp topp.“

„Við tökum allar umræður“

Þórir telur orðalagið „Twitter-erjur“ ekki eiga vel við samtal lögreglunnar og Hjalta þar sem það gefi í skyn að rifrildi hafi átt sér stað. Segir hann tístin sem flugu milli lögreglunnar og Hjalta hafa verið spurningar og svör og slík samskipti eigi ekki að túlka sem fjandsamleg.

„Við leggjum svo mikið upp úr því að eiga þessi milliliðalausu samskipti við fólk og okkur þykir gott að það skuli hafa samband við okkur með þessum hætti,“ segir Þórir.

„Við tökum allar umræður. Ef einhver ræðir við okkur svörum við. Það er eðli samfélagsmiðla, fólk kemur til okkar með hvað eina sem það vill ræða við lögreglu og með því að vera á samfélagsmiðlum erum við að segja að við ætlum að svara og taka til greina það sem fólk segir.“

Hjalti Vigfússon.
Hjalti Vigfússon. Ljósmynd/Druslugangan
Frá Druslugöngunni 2014
Frá Druslugöngunni 2014 mbl.is/Árni Sæberg
Lögreglan hefur löngum þótt til fyrirmyndar á samfélagsmiðlum en Hjalti …
Lögreglan hefur löngum þótt til fyrirmyndar á samfélagsmiðlum en Hjalti furðar sig á svörum hennar á Twitter. mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson
Druslugangan 2015 hefur m.a. sett af stað myllumerkið #drusluákall sem …
Druslugangan 2015 hefur m.a. sett af stað myllumerkið #drusluákall sem Hjalti notaði við tíst sitt til lögreglu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert