Vanlíðan í starfi löngu eftir hrun

Í rit­gerðinni voru tveir starfs­hóp­ar skoðaðir, ann­ars veg­ar starfs­fólk skóla …
Í rit­gerðinni voru tveir starfs­hóp­ar skoðaðir, ann­ars veg­ar starfs­fólk skóla í leik-, grunn- og tón­list­ar­skóla og hins veg­ar starfs­fólk umönn­un­ar­stofn­ana á elli­heim­il­um, á sam­býl­um bæði fyr­ir ein­stak­linga með fötl­un og geðræn vanda­mál. mbl.is/Hari

Langvar­andi álag og niður­skurður í starfs­manna­haldi hef­ur nei­kvæð áhrif á heilsu og líðan á vinnustað. Sam­drátt­araðgerðir stjórn­valda eft­ir hrunið 2008 höfðu nei­kvæð tengsl við starfsaðstæður, heilsu og líðan starfs­fólks sem var áfram í starfi hjá sveit­ar­fé­lög­um á land­inu á ár­un­um 2010 til 2013. Fleira starfs­fólk taldi heilsu sína, líðan og starfsaðstæður á vinnustað verri árið 2013 en 2011 og 2010 þegar al­mennt er talið að krepp­unni hafi lokið um mitt ár 2011.

Þetta kem­ur fram í doktors­rit­gerð Hjör­dís­ar Sig­ur­steins­dótt­ur í fé­lags­fræði sem hún varði ný­verið við Há­skóla Íslands.

Í rit­gerðinni voru tveir starfs­hóp­ar skoðaðir, ann­ars veg­ar starfs­fólk í leik-, grunn- og tón­list­ar­skóla og hins veg­ar starfs­fólk umönn­un­ar­stofn­ana á elli­heim­il­um, á sam­býl­um bæði fyr­ir ein­stak­linga með fötl­un og geðræn vanda­mál. Þess­ir hóp­ar eru báðir tald­ir búa við mikið starfs­ör­yggi og kon­ur eru í mikl­um meiri­hluta. Rann­sókn­in var með blönduðu rann­sókn­ar­sviði, bæði var lögð fyr­ir net­könn­un og rýni­hópaviðtöl. 

Doktors­rit­gerðin bygg­ist á fjór­um vís­inda­grein­um sem voru skrifaðar up­p­ úr rann­sókn­inni og lúta all­ar að líðan en með ólík­um áhersl­um. Í heild­ina voru það 2.356 starfs­menn sem tóku þátt í öll­um þrem­ur fyr­ir­lögn­um rann­sókn­ar­inn­ar og gáfu upp upp­lýs­ing­ar til þess að para sam­an gögn­in. Svar­hlut­fall yfir 65% í öll­um fyr­ir­lögn­um. Kynja­hlut­fallið er 87% kon­ur og 13% karl­ar.

Skilaði uppsveiflan sér ekki til sveitarfélaga?

Hjör­dís seg­ir það umhugsunarvert að fleira starfsfólk tjái and­lega vanlíðan í starfi fimm árum eft­ir hrun bank­anna á sama tíma og sam­fé­lagið var að rétta úr kútn­um. Hún seg­ir erfitt að benda á eitt­hvað eitt sem gæti or­sakað þessa þróun. Heils­an var verri á þeim stöðum þar sem upp­sagn­ir höfðu orðið.

„Kannski skilaði upp­sveifl­an sér ekki nægi­leg vel til sveit­ar­fé­lag­anna og tekju­stofn­ar þeirra eru leng­ur að taka við sér. Það er líka erfiðara að snúa við óánægju þegar hún er orðin,“ seg­ir Hjör­dís. Hún tek­ur fram að hægt sé að velta upp ýms­um kenn­ing­um um hvað valdi þessu. Hún bend­ir á að erfitt er að meta hvort líðanin sé að öllu leyti til kom­in vegna starfsaðstæðna eða hvort ástandið í þjóðfé­lag­inu, sem kem­ur bæði niður á þeim sjálf­um og skjól­stæðing­um þeirra, ger­ir líðan­ina enn verri fyr­ir vikið. Stjórn­end­ur og stjórn­völd geta tví­mæla­laust nýtt sér þessa rann­sókn þegar kem­ur að sam­drátt­araðgerðum til að meta áhrif­in til lang­tíma, að sögn Hjör­dís­ar.    

Hjördís Sigursteinsdóttir, doktor í félagsfræði.
Hjördís Sigursteinsdóttir, doktor í félagsfræði.

Ólík upplifun kynjanna á hótunum 

Hjör­dís rann­sakaði meðal ann­ars hót­an­ir og lík­am­legt of­beldi á vinnustað þar sem sér­stak­lega var horft til mis­mun­andi upp­lif­un­ar kynj­anna milli starfs­hópa skóla og starfs­fólks í umönn­un­ar­störf­um. Þar kom í ljós að upp­lif­un karla og kvenna af hót­un­um og lík­am­legu of­beldi er ólík og karl­ar greindu frá því að þeir hefðu orðið í meira mæli en kon­ur fyr­ir hót­un­um á vinnustað.

Hins veg­ar töldu þátt­tak­end­ur í rýni­hóp­un­um að kon­um væri hættara við hót­un­um en körlum. Talað var um ákveðna skömm sem fylgdi því að viður­kenna að hafa orðið fyr­ir hót­un­um og lík­am­legu of­beldi á vinnustað, sér í lagi meðal kvenna.  Hugs­an­lega hafa karl­ar og kon­ur mis­mun­andi viðhorf til þessa. „Þetta eru mjög at­hygl­is­verðar niður­stöður sem þyrfti að rann­saka frek­ar,“ seg­ir Hjör­dís.

Þess má geta að starfs­fólk í umönn­un­arþjón­ustu greindi í meira mæli en starfs­fólk skól­anna frá því að hafa orðið fyr­ir hót­un­um og of­beldi á vinnustað. Karl­menn eru í meiri­hluta starfs­manna t.d. á sam­býl­um en kon­ur í skól­um þar sem gerend­ur eru aðallega nem­end­ur.

Fleiri greindu frá einelti og áreitni

Í rann­sókn Hjör­dís­ar á einelti og áreitni kom í ljós að fleiri og fleiri greindu frá því að hafa orðið fyr­ir einelti og áreitni á nú­ver­andi vinnustað eft­ir því sem leið á rann­sókn­ar­tím­ann. Mun­ur­inn á milli karla og kvenna var ekki mark­tæk­ur og hlut­fallið var hærra á vinnu­stöðum þar sem ein­hverj­um hafði verið sagt upp störf­um en á öðrum vinnu­stöðum. Sam­skipt­in versna að mati þátt­tak­enda frá 2010 til 2013 sam­hliða því að fleirum líður einnig ver. Hún tek­ur fram að hafa ber í huga að í rann­sókn­inni er um að ræða sjálfsmetna heilsu og líðan.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert