Arnaldur metinn hæfastur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur skilað umsögn sinni um umsækjendur um eitt embætti dómara með fast sæti við Héraðsdóm Reykjavíkur. Niðurstaða dómnefndar er að Arnaldur Hjartarson sé  metinn hæfastur til þess að verða skipaður dómari.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu. Fram kemur, að embættið hafi verið auglýst laust til umsóknar 17. nóvember. 

„Umsóknarfrestur var til 11. desember og barst 31 umsókn. Sex umsækjendur, sem skipaðir höfðu verið í embætti héraðsdómara frá 9. janúar sl., drógu umsóknir sínar til baka. Niðurstaða dómnefndar er að Arnaldur Hjartarson sé  metinn hæfastur til þess að verða skipaður dómari með fast sæti við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Dómnefndina skipuðu: Jakob R. Möller, Kristín Benediktsdóttir, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Ragnheiður Harðardóttir og Ragnhildur Helgadóttir,“ segir í tilkynningu. 

Arnaldur Hjartarson.
Arnaldur Hjartarson.

Í umsögninni segir m.a., að Arnaldur, sem er 34 ára gamall, eigi að baki glæsilegan námsferil, bæði við Háskóla Íslands og Yale-háskóla. Þá hafi hann á skömmum tíma náð verulegum árangri í fræðimennsku, bæði með útgáfu fræðirits um Evrópskan bankarétt og áhrif hans á íslenskan rétt árið 2017 og birtingu allmargra ritrýndra fræðigreina á íslensku og ensku. 

„Að áliti dómnefndar bera ritsmíðar Arnaldar vott um hæfileika hans til að greina og leysa skýrlega úr lögfræðilegum álitaefnum á ólíkum réttasviðum,“ segir m.a. í umsögninni.

Fram kemur að hann hafi starfað um skamman tíma sem settur héraðsdómari. Þá hafi hann verið aðstoðarmaður við Hæstarétt Íslands og EFTA-dómstólinn við góðan orðstír, auk starfa innan stjórnsýslunnar, þar með talin fyrir rannsóknarnefnd Alþingis, Fjármálaeftirlitið, Bankasýslu ríkisins og viðurlaganefnd Kauphallarinnar. 

„Að mati dómnefndar hefur Arnaldur sýnt sjálfstæði, hlutlægni, frumkvæði og skilvirkni í starfi og að hann eigi auðvelt með að skilja aðalatriði frá aukaatriðum,“ segir ennfremur í umsöginni.

Umsögn dómnefndarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert