„Við þurfum að breyta eigin hugsun“

Úrgangur urðaður á Álfsnesi.
Úrgangur urðaður á Álfsnesi. mbl.is/Rax

„Þetta reddast er frasi sem við Íslendingar eigum í skrítnu sambandi við,“ sagði Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, á ársfundi stofnunarinnar í morgun. Yfirskrift erindis hennar var: Þetta reddast - en þó ekki af sjálfu sér.

„Þetta vísar til þess að við erum bjartsýn og ráðumst í verkefni án þess að mikla þau fyrir okkur. Við búum nálægt náttúruöflum en mætum þeim galvösk, eins og í morgun þegar fólk þurfti að skafa,“ sagði Kristín.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. Ljósmynd/Umhverfisráðuneytið

Hún bætti við að frasinn geti einnig reynst varasamur. „Stundum sjáum við minni hvata í að undirbúa það sem þarf að undirbúa og erum ekki best í heimi að búa til langtímaáætlanir eða fylgja þeim eftir,“ sagði Kristín og bætti við að margar góðar skýrslur hefðu horfið ofan í skúffu.

Kristín sagði að í umhverfismálum væri gerð mikil krafa um framsýni enda hafi ákvarðanir sem við tökum í dag mikil áhrif á framtíðina. Hún benti á að árið 2016 hefði myndast ein milljón tonna af úrgangi á Íslandi.

„Við þurfum að minnka myndun úrgangs og setja hann í hringrænt hagkerfi og sjá til þess að úrgangurinn fari ekki úr hringnum.“

Hún benti á að Íslendingar þyrftu að endurskoða eigin neyslu til að hægt væri að draga úr losun. „Mesta skuldbinding Íslendinga er að draga úr neyslu og losun. Við þurfum að breyta eigin hugsun og hætta að sóa hlutum. Reddingar duga ekki í loftslagsmálum,“ sagði Kristín og bætti við að ekkert reddaðist af sjálfu sér.

„Við eigum bara eina plánetu. Við þurfum að geta horfst í augu við börnin okkar og barnabörn og sagt að við höfum lagt okkar af mörkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert