Viðurkenndi að hafa veist að eiginkonunni

Héraðsdómur Vestfjarða.
Héraðsdómur Vestfjarða. Af vef Bæjarins besta

Karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa með alvarlegum hætti ógnað lífi, heilsu og velferð eiginkonu sinnar. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Vestfjarða 18. júlí, en brotið átti sér stað 24. maí.

Ákærði mun hafa gripið í hár eiginkonu sinnar, dregið hana þannig fram úr rúmi sínu, slegið hana í andlitið og gripið í handleggi hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut stóra marbletti á olnboga, upphandlegg og úlnlið.

Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök og taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játningin væri sannleikanum samkvæm. Samkvæmt gögnum málsins mun ákærði hafa sýnt af sér óeðlilega hegðun í garð brotaþola um lengri tíma áður en atvikið átti sér stað. 24. maí sauð upp úr, ákærði beitti eiginkonu sína ofbeldi og hún flúði heimilið.

Sakaferill ákærða hafði ekki áhrif við ákvörðun refsingar, og í ljósi skýlausrar játningar hans og þess að hann hefur ekki gerst sekur um ofbeldisbrot áður, þótti refsing ákæðra hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu refsingar er frestað og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi hann skilorði.

Ákærða var einnig gert er að greiða allan sakarkostnað, rúmlega 200.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert