Nokkrar tegundir úrkomu koma til greina

mbl.is/Styrmir Kári

1.003 mb lægð er á Grænlandshafi og er hún á austurleið yfir landið. Vindur mun því blása úr ýmsum áttum og nokkrar úrkomutegundir koma til greina í dag og á morgun, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Suðlæg átt í fyrstu og úrkoma um vestanvert landið, og einnig nyrst á landinu. Rigning eða súld suðvestan til en snjókoma á Vestfjörðum og nyrst og hlýnar þar smám saman með deginum og skiptir því yfir í slyddu eða rigningu. 

Vestlægari vindur í kvöld og skúrir vestanlands en slydda eða rigning austan til. 
Snýst svo í norðlæga átt í nótt og kólnar í veðri með éljum eða snjókomu, en drag myndast og vindur verður vestlægari sunnan til með slyddu eða rigningu. Ætli það sé ekki jafn lýsandi að taka þetta saman og segja bara rigning eða snjókoma með köflum,“ segir í hugleiðingum á vef Veðurstofu Íslands.

Veðrið næstu daga

Suðaustan 8-15 og rigning eða slydda með köflum. Hægari vindur og úrkomulítið norðaustanlands þar til síðdegis. Suðvestlægari og skúrir seint í kvöld, en léttir til um austanvert landið. 
Norðaustan 10-18 og snjókoma með köflum um norðanvert landið á morgun en hægari vestlæg átt sunnan til og slydda eða rigning. Hiti 2 til 7 stig en í kringum frostmark norðaustan til. Kólnar á morgun.

Á laugardag:
Norðaustan 8-15 og snjókoma um norðanvert landið en hægari vestlæg átt sunnan til og slydda eða rigning. Kólnandi, frost 2 til 7 stig um kvöldið en frostlaust syðst. 

Á sunnudag:
Fremur hæg breytileg átt, skýjað að mestu og þurrt, en norðan 10-15 m/s og él norðaustanlands. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan. 

Á mánudag:
Gengur í hvassa suðaustanátt með snjókomu á köflum um land allt, en slydda eða rigning sunnalands um kvöldið. Frost 0 til 6 stig, en 0 til 4 stiga hiti við suðurströndina. 

Á þriðjudag:
Norðlæg átt og él um norðanvert landið en austlægari og víða snjókoma sunnan til. Kalt í veðri. 

Á miðvikudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt og stöku él norðaustanlands, en bjartviðri syðra. Herðir á frosti. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðlæga átt og snjókomu og síðar rigningu sunnan- og vestan til en þurrt annars staðar. Hlýnar í veðri.

Færð og aðstæður

Vesturland: Hálka er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku, snjóþekja er á Laxárdalsheiði.

Vestfirðir: Snjóþekja og hálka og víða er éljagangur eða snjókoma.

Norðurland: Snjóþekja er á láglendi en hálka er á Vatnsskarði, Inn-Blönduhlíð og Öxnadalsheiði.

Norðausturland: Hálkublettir eru á Norðausturvegi (85) og inn til landsins.

Austurland: Hálka er á Fjarðarheiði en hálkublettir á Fagradal aðrar leiðir eru greiðfærar.

Suðausturland: Hálkublettir eru við Freysnes og í Eldhrauni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert