Meirihlutinn gisti á Íslandi

Alls komu 132 þúsund ferðamenn til Íslands í febrúar.
Alls komu 132 þúsund ferðamenn til Íslands í febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlað er að ferðamenn sem gistu a.m.k. eina nótt á Íslandi hafi verið 89% af þeim erlendu farþegum sem taldir voru í gegnum öryggisleit á Keflavíkurflugvelli í febrúar. Talið er að ferðamenn hafi verið ríflega 132 þúsund í febrúar og fækkað um 8% samanborið við febrúar 2018.

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta skipti áætlaðar tölur um fjölda erlendra ferðamanna sem taldir eru í gegnum öryggisleit á Keflavíkurflugvelli. Talið er að þá fækkun sem hefur verið á erlendum farþegum í gegnum Keflavíkurflugvöll á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs megi eingöngu rekja til fækkunar ferðamanna. Reiknað er með að sjálftengifarþegum og dagsferðamönnum hafi fækkað í sama hlutfalli og ferðamönnum en hins vegar hafi ferðum erlendra ríkisborgara búsettra á Íslandi til lengri eða skemmri tíma fjölgað samanborið við fyrra ár.

Fjöldi ferðamanna er áætlaður út frá brottförum erlendra farþega í gegnum vopnaleit og leiðrétt fyrir sjálfskiptifarþegum, dagsferðamönnum, erlendum ríkisborgurum með búsetu á Íslandi og erlendu skammtímavinnuafli. Hlutfall sjálfskiptifarþega og dagsferðamanna er áætlað út frá rannsókn sem framkvæmd var af ISAVIA á Keflavíkurflugvelli á árunum 2017-2018. Erlendum ríkisborgurum búsettum á Íslandi hefur fjölgað mikið undanfarin ár, í þessari nálgun er gert ráð fyrir því að þessi hópur ferðist til jafns við Íslendinga sem búsettir eru hérlendis. Ferðir skammtímavinnuafls eru nálgaðar út frá staðgreiðsluskrá þar sem einstaklingar sem hvorki hafa ríkisborgararétt né lögheimili hérlendis, en koma fram á staðgreiðsluskrá, eru taldir og er dvalarlengd þeirra aðila nálguð út frá fjölda skipta sem viðkomandi einstaklingar fá greitt á Íslandi skv. staðgreiðsluskrá.

Auk áætlaðra upplýsinga um fjöla ferðamanna eru nú uppfærðar tölur um virðisaukaskattskylda veltu, fjölda launþega, gistingu, bílaleigubíla, umferð á vegum og umferð í gegnum Keflavíkurflugvöll.

mbl.is