Ferðamenn í vegi loftslagsmarkmiða

Ef Ísland á að ná markmiðum um samdrátt í losun …
Ef Ísland á að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verður að líta til vaxtar í losun flugsamgangna og bifreiða vegna auknum fjölda ferðamanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef Ísland á að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum til ársins 2030 í takt við skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu, verður að líta til vaxtar í losun flugsamgangna og bifreiða vegna aukins fjölda ferðamanna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um innlenda eldsneytisframleiðslu.

Í skýrslunni segir að fram til ársins 2005 hafi mest losun verið frá fiskveiðiflotanum, „en kvótakerfið og stöðugar nýjungar í hönnun, þróun og stýringu búnaðar hefur leitt til minni eldsneytisnotkunar og þar af leiðandi verulegs samdráttar í losun flotans.“

Flug mesti losunarvaldurinn

Þá hafi losun frá bifreiðum farið fram úr fiskveiðiflotanum árið 2005 „en dróst saman eftir hrun en óx hratt aftur frá og með 2014. Mikill vöxtur hefur verið í eldsneytisnotkun og losun frá flugsamgöngum frá 2009 sem varð mesti losunarvaldurinn frá 2015.“

Einnig er bent á að frá árinu 2014 hafi orðið mikill vöxtur í eldsneytisnotkun bifreiða og losun vegna vegna þessa. „Vöxtur í losun frá flugi og bifreiðum er talinn tengjast auknum fjölda ferðamanna.“

Alþjóðaflug er þó undanskilið Parísarsamkomulaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert