Aðgerðir til að efla matvælalöryggi

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fyrir Alþingi skýrslu um „aðgerðaáætlun í því skyni að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu“.

Þar segir að á síðasta þingi hafi Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagt fram „frumvarp um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru þar sem lagðar voru til breytingar á fyrirkomulagi við innflutning á tilteknum landbúnaðarafurðum“. Frumvarpið hafi verið samþykkt í júní sl. og taki gildi 1. janúar á næsta ári. 

Með lögunum hafi núverandi leyfisveitingakerfi við innflutning á tilteknum landbúnaðarafurðum verið afnumið og markmiðið sé að íslensk stjórnvöld standi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem landið hafi undirgengist. Málið snýst um EES-samninginn og innflutning á ófrystu kjöti. 

Í skýrslunni segir að samhliða undirbúningi og vinnslu frumvarpsins hafi ráðuneytið unnið að undirbúningi aðgerðaáætlunar sem miði að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Áætlunin hafi verið lögð fram af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í sumar og verið samþykkt sem þingsályktun. Á grundvelli þess sé skýrslan nú lögð fram.

Aðgerðir sem lokið hefur verið við og unnið er að

Í skýrslunni eru taldar upp nokkrar aðgerðir sem ýmist er lokið eða unnið að. Þær sjö aðgerðir sem fram kemur að sé lokið eru: 

  • Innleiddar verði viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum.
  • Óskað verði eftir viðbótartryggingum vegna innflutts svínakjöts og nautakjöts.
  • Bönnuð verði dreifing alifuglakjöts nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter í því.
  • Sett verði á fót áhættumatsnefnd.
  • Tryggð verði skjótari innleiðing reglugerða Evrópusambandsins þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara.
  • Opinberum eftirlitsaðilum verði tryggð heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni við dreifingu alifuglakjöts án sönnunar fyrir því að ekki hafi greinst í því kampýlóbakter.
  • Tollskrá fyrir landbúnaðarvörur verði endurskoðuð.

Þá er fyrirhugað að eftirtöldum aðgerðum verði lokið um áramót: 

  • Innleidd verði reglugerð (EB) nr. 206/2009 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu.
  • Tryggð verði aukin fræðsla til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.
  • Settur verði á fót sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu.
  • Mótuð verði matvælastefna fyrir Ísland.
  • Könnuð verði þróun tollverndar og greind staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.

Loks eru taldar upp aðgerðir sem teljist til lengri tíma verkefna og sagðar eru vel á veg komnar: 

  • Átak verði gert til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
  • Ráðist verði í átak um betri merkingar matvæla.
  • Innleidd verði stefna opinberra aðila um innkaup á matvælum.
  • Tekið verði til skoðunar að setja á fót sérstakan tryggingasjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma.
  • Ráðist verði í átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert