44 ár á milli þess yngsta og elsta við útskriftina

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, flutti ávarp við athöfnina.
Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, flutti ávarp við athöfnina. Ljósmynd/Tækniskólinn

Samtals útskrifuðust 275 nemendur af 49 brautum frá Tækniskólanum á miðvikudaginn við veglega athöfn í Hörpu. Yngsti nemandinn var 17 ára, en sá elsti 61 árs. Auður Þórunn Rögnvaldsdóttir er dúx skólans, en hún útskrifaðist af rafeindavirkjabraut. Hafði hún áður lokið námi í hugbúnaðarverkfræði frá DTU í Danmörku og stúdentsprófi frá MR.

Braut­skráð var frá eft­ir­far­andi skólum/​deildum Tækni­skólans: Bygg­inga­tækni­skól­anum, Hand­verks­skól­anum, Raf­tækni­skól­anum, Skip­stjórn­ar­skól­anum, Tækni­mennta­skól­anum, Upp­lýs­inga­tækni­skól­anum, Vél­tækni­skól­anum og Tækniaka­demí­unni (þ.m.t. Meist­ara­skól­anum).

Í ávarpi Hildar Ingvarsdóttur, skólameistara Tækniskólans, fjallaði hún meðal annars um óveðrið sem gekk yfir landið í síðustu viku og tók dæmi um að tveir nýútskrifaðir iðnmeistarar sem áttu að taka við skírteinunum á miðvikudaginn hefðu þurft að afboða komu sína þar sem þeir voru staddir norður í landi og voru í hópi þeirra sem unnu að því að koma grunnkerfum landsins aftur í samt lag.

Nefndi hún að fjölmargir fagmenntaðir hefðu unnið sleitulaust þessa daga eftir óveðrið. Hvort sem það voru skipstjórar eða vélstjórar sem sigldu til Dalvíkur til þess að koma rafmagni aftur á í samvinnu við rafiðnaðarmenn og vélfræðinga hjá orku- og veitufyrirtækjum. Samhliða ynnu rafvirkjar að því að koma loftlínum í lag og hreinsa tengivirki. Rafeindavirkjar og ýmsir tæknimenn hefðu svo unnið að því að koma fjarskiptamálum í lag og fagfólk úr byggingageiranum kæmi að viðgerðum og uppbyggingu. Sagði hún að þannig gegndi vel menntað fagfólk lykilhlutverki við þessar aðstæður.

Sem fyrr segir var Auður Þórunn dúx skólans. Lokaverkefni hennar var stereo-magnari og fjarstýring fyrir magnarann. Semidúx kom af tölvubraut, en það var Matthías Ólafur Matthíasson.

Nemendur við útskriftina í Silfurbergi í Hörpu í vikunni.
Nemendur við útskriftina í Silfurbergi í Hörpu í vikunni. Ljósmynd/Tækniskólinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka