Hríð og gular viðvaranir fyrir norðan og vestan

Norðanhríð er nú á Norðurlandi og Vestfjörðum og gular viðvaranir …
Norðanhríð er nú á Norðurlandi og Vestfjörðum og gular viðvaranir í gildi. mbl.is/RAX

Norðanhríð er á Norðurlandi og Vestfjörðum og gular viðvaranir í gildi, en hægari vindur í öðrum landshlutum. 

Í dag mun hvessa vestanlands og á Austurlandi með éljagangi. Í nótt og á morgun dregur síðan úr vindi og úrkomu á landinu og annað kvöld verður vindur víðast hvar á bilinu 3-10 m/s, léttskýjað sunnan til en enn þá stöku él um landið norðanvert. Útlit er fyrir hæga norðlæga átt á miðvikudag og fimmtudag með bjartviðri og talsverðu frosti.

Vetrarfærð er í öllum landshlutum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni og er færð tekin að spillast á Vestfjörðum. Ófært er á Þröskuldum og Klettshálsi og beðið er með mokstur vegna veðurs. Þá er óvissustig vegna snjóflóðahættu í gildi í Súðavíkurhlíð og Ólafsfjarðarmúla.  

Veðrið hefur einnig áhrif á færð á Norðurlandi, ófært er á Þverárfjalli en unnið er að hreinsun. Víkurskarð er einnig ófært og beðið er með mokstur vegna veðurs.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert