Sýningunni Verk og vit frestað vegna veirunnar

Sýningunni Verk og vit hefur verið frestað. Hér má sjá …
Sýningunni Verk og vit hefur verið frestað. Hér má sjá sýningarsvæði Reykjavíkurborgar á síðustu sýningu árið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Framkvæmdaaðili sýningarinnar Verks og vits hefur að höfðu samráði við embætti landlæknis og samstarfsaðila sýningarinnar ákveðið að fresta sýningunni sem halda átti í Laugardalshöll 12.-15. mars næstkomandi fram til 15.-18. október.

„Í ljósi aðstæðna vegna COVID-19 setur framkvæmdaaðili sýningarinnar heilsu og hag sýnenda, þjónustuaðila og gesta sýningarinnar í forgang og er þessi ákvörðun tekin nú áður en uppsetning hefst á sýningunni. Verk og vit hefur skipað sér sess sem uppskeruhátíð bygginga- og mannvirkjageirans en á síðustu Verk og vit-sýningu 2018 sóttu um 25.000 manns sýninguna,“ segir í tilkynningu.

Fram kemur að með hliðsjón af eðli sýningarinnar og þeim fjölda fólk sem sækir hana heim væri erfitt að framfylgja að fullu leiðbeiningum almannavarna. Til að gæta ýtrasta öryggis sýnenda og gesta var því ákveðið að fresta sýningunni.

Mikill áhugi var á sýningunni og var uppselt á sýningarsvæðið mánuði fyrir opnun. Yfir 100 fyrirtæki og stofnanir ætluðu að kynna þar vörur sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka