Hafði betur gegn borginni eftir slys í sundi

Konan datt á sundlaugarbakkanum í Árbæjarlaug.
Konan datt á sundlaugarbakkanum í Árbæjarlaug. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest skaðabótaskyldu Reykjavíkurborgar vegna slyss sem kona lenti í þegar hún var gestur í Árbæjarlaug og datt og slasaðist á fæti á sundlaugarbakkanum. 

Málið á rætur að rekja til heimsóknar konunnar og eiginmanns hennar í Árbæjarlaug 2. janúar 2022. Hjónin dvöldu í vaðlaug og höfðu hug á að fara í heitan pott sem staðsettur var annars staðar á sundlaugarsvæðinu. Konan lagði af stað á undan manninum sínum og gekk á sundlaugarbakkanum.

Rann á ísingu á sundlaugarbakkanum

Þegar hún var komin um hálfa leiðina að heita pottinum rann hún á ísingu sem var á sundlaugarbakkanum og datt og slasaðist á fæti.

Hjónin fóru svo á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss. Kom þá í ljós að konan hafði orðið fyrir áverka á ristarbeinum og liðböndum sem kröfðust aðgerðar bæklunarskurðlæknis. Undirgekkst hún aðgerðina 14. janúar 2022.

Í nóvember á síðasta ári undirgekkst hún aðra aðgerð þar sem plata og fjórar af sex skrúfum sem komið hafði verið fyrir í aðgerðinni voru fjarlægðar.

Reykjavíkurborg vildi meina að slysið gæti ekki verið rakið til …
Reykjavíkurborg vildi meina að slysið gæti ekki verið rakið til saknæmrar háttsemi starfsmannanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Taldi ríka skyldu hvíla á Árbæjarlaug

Konan byggði á því að Reykjavíkurborg bæri skaðabótaábyrgð á tjóninu sem konan varð fyrir. Slysið hafi mátt rekja til saknæms vanbúnaðar á búnaði sundlaugarinnar. Hún sagði að rík skylda hvíli á umráðamönnum fasteigna til að takmarka slysahættu á stöðum sem opnir séu almenningi.

Byggði hún jafnframt á því að varúðarskilti vegna hálku hafi ekki verið sjáanleg á slysstað en að slík skilti eigi að vera staðsett þannig að laugargestir komist ekki hjá því að sjá þau. Í kjölfar slyssins hafi starfsmaður sundlaugarinnar gert úrbætur á þessu og þannig viðurkennt að fyrri aðbúnaður hafi verið ófullnægjandi.

Konan byggði einnig á því að eftirliti með laugargestum hafi verið ábótavant. Enginn starfsmaður hafi orðið vitni að slysinu samkvæmt umsögn forstöðumanns Árbæjarlaugar og enginn þeirra hafi boðist til að hjálpa henni til að komast undir læknishendur.

Viðurkennd var bótaskylda Reykjavíkurborgar með dómi Héraðsdóms.
Viðurkennd var bótaskylda Reykjavíkurborgar með dómi Héraðsdóms. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tókst að leiða fullnægjandi líkur á tjóninu

Reykjavíkurborg krafðist sýknu í málinu og taldi slysið ekki mega rekja til atvika eða aðstæðna sem vátryggingartaki beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Ennfremur bendi ekkert í gögnum málsins til þess að starfsfólk sundlaugarinnar hafi sýnt af sér saknæma háttsemi.

Héraðsdómur sagði að Reykjavíkurborg hafi borið sönnunarbyrði fyrir því að gripið hafi verið til fullnægjandi ráðstafana vegna aðstæðna þennan tiltekna dag. Þar sem sundlaugin hafi ekki axlað þá sönnunarbyrði yrði ekki hjá því komist að fella skaðabótaábyrgð á Reykjavíkurborg.

Taldi dómurinn konuna hafa axlað sína sönnunarbyrði og þannig leitt fullnægjandi líkur á tjóni sínu. Hún aflaði læknisvottorðs frá bæklunarskurðlæknis sem vottaði að eðli slyssins hafi verið slíkt að hún muni búa við varanlegt mein vegna þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert