Enn vakt við Hafnarstræti

Slökkviliðið þurfti að rjúfa þakið á Hafnarstræti 37 í gærkvöldi.
Slökkviliðið þurfti að rjúfa þakið á Hafnarstræti 37 í gærkvöldi. mbl.is/Margrét Þóra

Enn er vakt við Hafnarstræti 37 á Akureyri og voru slökkvilið og lögregla að störfum fram á nótt. Maður sem fannst rænulaus í íbúð hússins var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur í gærkvöldi og er lögregla ekki með upplýsingar um líðan hans snemma í morgun. Ekki er vitað um eldsupptök og hefst rannsókn tæknideildar lögreglu á vettvangi í dag.

Slökkvilið og lögregla á Akureyri voru kölluð út vegna reyks sem lagði frá húsinu sem er í innbænum svonefnda. Um er að ræða tveggja hæða timburhús á steyptum kjallara, eitt af eldri húsum bæjarins, byggt 1903.

Húsið að Hafnarstræti 37 á Akureyri er mjög illa farið …
Húsið að Hafnarstræti 37 á Akureyri er mjög illa farið ef ekki ónýtt. mbl.is/Margrét Þóra

Nágranni tilkynnti um reykinn og var mikill reykur í húsinu þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Reykkafarar frá slökkviliðinu fóru um húsið og fundu rænulausan mann á miðhæð þess. Aðrir reyndust ekki vera þar innandyra. 

Húsið stendur meðal annarra timburhúsa í gamalgrónu hverfi. Ljóst var að reykurinn stafaði af eldi í húsinu og því möguleg hætta af þessu fyrir önnur hús. Tvö hús voru rýmd og aðrir íbúar í nágrenninu voru hvattir til að loka gluggum á húsum sínum. Fenginn var strætisvagn fyrir fólkið sem þurfti að yfirgefa húsin sín og komu starfsmenn frá Rauða krossinum til að aðstoða fólkið, að því er fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert