Kári svarar Smára McCarthy fullum hálsi

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er ekki þekktur fyrir að …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er ekki þekktur fyrir að gefa tommu eftir. Mynd/mbl.is

„Smári McCarthy heldur því fram að það megi rekja það til frekjukasts hjá mér að ÍE er að hætta þátttöku sinni í skimun á landamærum á næsta mánudag. Ég hvet Smára (og aðra) til þess að skoða hvað það er sem hann kallar enn eitt frekjukastið hjá mér,“ skrifar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í færslu á Facebook.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, birti færslu á Facebook fyrr í dag og þar sagðist hann taka undir ýmislegt sem Kári hefur sagt eftir að hann greindi frá þeirri ákvörðun að Íslensk erfðagreining myndi hætta að koma að skimun á landamærum landsins frá og með mánudeginum næsta, 13. júlí.

Hefði viljað sleppa við „enn eitt frekjukastið“ frá Kára

Þingmaðurinn segist hins vegar hefðu „gjarnan viljað sleppa því að sjá Kára Stefánsson taka enn eitt frekjukastið, sérstaklega þegar það gæti bitnað á almannaheilsu og öryggi, þá verð ég að viðurkenna að það er svolítið ánægjulegt að sjá ríkisstjórnina sem getur ekki tekið jafnvel auðveldustu ákvarðanir um almannahag fá ærlega á baukinn frá einum einkaaðilanum sem Sjallar hömpuðu á sínum tíma“.

Án framlags ÍE hefði ekki verið hægt að koma böndum á faraldurinn

Kári fer yfir aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að skimun síðastliðna fjóra mánuði og að fyrirtækið hafi skimað um 74 þúsund Íslendinga, raðgreint sýni úr öllum með staðfesta sýkingu, skimað eftir mótefnum gegn veirunni í 30 til 40 þúsund Íslendingum og fleira.

„Þetta höfum við gert af fúsum og frjálsum vilja sem sjálfboðaliðar og án þess að fá fyrir þetta greiðslu. Við höfum á þessum fjórum mánuðum vanrækt dagvinnuna okkar að því marki að það stefnir framtíð ÍE í hættu. Án þessa framlags hefði varla tekist að koma böndum á faraldurinn. Á þessum tíma höfum við ekki fengið eitt einasta símtal eða póst frá heilbrigðisráðuneytinu og höfum ekki haft aðgang að neinum upplýsingum um það hvernig hið opinbera ætlaði að taka við þeim verkefnum sem við höfðum séð um,“ skrifar Kári og er hvergi nærri hættur.

„Hvað heldurðu að þú sért?“

Hann segir að Íslensk erfðagreining hafi ekki séð sér fært að halda áfram að leggja sitt af mörkum til skimunar á landamærum án þess að sjá fyrir endann á þeirri þátttöku. Þess vegna hafi hann sent bréf til ríkisstjórnarinnar og farið fram á að hún gæfi út yfirlýsingu um að hún ætlaði strax að búa til stofnun sem gæti sinnt þessu. Hann segir svarið hafa verið einhvern veginn svona:

„Hvað heldurðu að þú sért? Við ætlum að setja verkefnastjóra í að skoða hvernig best væri að þessu staðið og hann skilar af sér 15. september eða eftir tíma sem jafnast á við þann tíma sem faraldurinn stóð yfir.“

Skringilegt höfuð á herðum sér en ekki alvitlaus

Þetta svar hafi hvergi nærri nægt til þess að Íslensk erfðagreining gæti séð fyrir lokin á þætti fyrirtækisins svo fyrirtækið hafi þurft að láta gott heita en gaf ríkisstjórninni sjö daga frest til þess að taka við. Hann endar færsluna með að hnýta létt í Smára en hrósar honum í leiðinni.

„Sem sagt við hlupum til þegar það var ljóst að heilbrigðiskerfið gat ekki höndlað vandann. Við björguðum því sem bjargað varð og þegar við þurfum að snúa okkur að því að halda okkur sjálfum á floti flokkast það í huga Smára undir afleiðingar frekjukasts. Hann er með skringilegt höfuð á herðum sér hann Smári en alls ekki alvitlaust,“ skrifar Kári.

mbl.is

Bloggað um fréttina