Íþróttafélög geti ekki endurgreitt

Æfingar barna á öllum aldri hafa fallið niður vegna sóttvarnaraðgerða.
Æfingar barna á öllum aldri hafa fallið niður vegna sóttvarnaraðgerða. Ernir Eyjólfsson

Íþróttafélög hafa ekki veitt afslátt af æfingagjöldum eða endurgreitt hluta þeirra vegna æfinga sem hafa fallið niður vegna sóttvarnaraðgerða það sem af er ári. Í mörgum íþróttafélögum er greiðsla æfingagjalda innheimt í 1. október en eðli málsins samkvæmt hafa æfingar ekki getað farið fram frá því snemma í október til 17. nóvember meðal yngri barna. Í elstu flokkum iðkenda eru æfingar ekki enn hafnar. 

Umræða hefur skapast meðal sumra foreldra um að sanngjarnast væri ef afsláttur yrði á æfingagjöldum á komandi ári eða ef hluti gjaldsins frá síðasta tímabili yrði endurgreiddur.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, telur félögin hvorki í stakk búin til að veita afslátt á komandi starfsári eða að endurgreiða hluta síðasta árs eins og staðan er. Breiðablik er með um 2.400 iðkendur á sínum snærum. Þar af eru um 1500 iðkendur í  knattspyrnu og kom til greiðslu æfingagjalda nú haust. Hann segir að til þessa hafi tæpur helmingur iðkenda ekki skráð sig til leiks fyrir komandi ár. Að auki sé óvissa með iðkendatölur.

„Við erum að fá mjög lága innritun eins og staðan er í dag. Við höfum haldið úti ákveðinni þjónustu með alla þessa þjálfara og starfsmenn sem eru með samninga og það er ljóst að það fer með íþróttafélögin ef við eigum að endurgreiða hluta þessara æfingagjalda,“ segir Eysteinn.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks.
Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks.

Engin afstaða tekin fyrr en útfærsla ríkisins er ljós 

Eins og fram hefur komið hyggst ríkisstjórnin veita um tveimur milljörðum í íþróttastyrki til íþróttafélaganna. Eysteinn segir að þegar ekki er búið að greina frá útfærslum þessa, og því sé erfitt að meta það sem hægt sé að gera gagnvart iðkendum.

 Hann segir að vandamálið hafi ekki verið til staðar þegar fyrsta bylgja faraldursins gekk yfir. „Í vor voru flestir búnir að ganga frá greiðslu æfingagjalda. Foreldrar stóðu með okkur í þessu og við útbjuggum æfingaplan fyrir iðkendur sem gátu sinnt þessu að heiman. Þjónustustigið var því eins hátt og hægt var miðað við aðstæður,“ segir Eysteinn. 

Lágar innritunartölur áhyggjuefni 

Hann telur það áhyggjuefni hve lág innritunartala iðkenda er miðað við fyrra ár. Sérstaklega sé staðan viðkvæm gagnvart iðkendur á aldrinum 14-19 ára sem sé hættara við brottfalli úr íþróttum. „Við sáum ekki mikið brottfall í sumar. Hins vegar er maður að heyra út undan sér að krökkunum finnist erfitt að koma sér af stað núna. Sértaklega á þetta við um framhaldsskólakrakka. Ég veit ekki hvort þessi hópur muni skila sér að fullu en ég hef áhyggjur af þessu,“ segir Eysteinn. 

Æfingagjöld barna koma til greiðslu í hinum ýmsu íþróttagreinum að …
Æfingagjöld barna koma til greiðslu í hinum ýmsu íþróttagreinum að hausti. Kristinn Ingvarsson

Hann segir að hann sé þakklátur foreldrum sem hafa staðið með íþróttahreyfingunni hingað til. „Við erum að leita ýmissa lausna til að koma til móts við foreldra. Æfingar vel inni í jólafrí koma til greina, eins að vera með æfingar um páska auk þess sem við erum að skoða hvort við getum verið með frí námskeið næsta sumar fyrir yngstu krakkana,“ segir Eysteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert