Miðhálendisgarður feli í sér stofnanavæðingu hálendisins

Ekki eru allir sammála um stofnun miðhálendisþjóðgarðs.
Ekki eru allir sammála um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðlimir í ungliðanefnd Ferðaklúbbsins 4x4 telja stofnun miðhálendisþjóðgarðs fela í sér stofnanavæðingu hálendisins og telja ekki nægan grundvöll fyrir stofnun þjóðgarðs á meðan ósætti ríkir um Vatnajökulsþjóðgarð. 

Hafa þeir sem mótmæla miðhálendisþjóðgarði kallað sig á samfélagsmiðlum „hinn grenjandi minnihluta“ eftir að Steingrímur J. Sigfússon vísaði til andstæðinga frumvarpsins með þeim hætti í ummælum sem hann lét falla á Alþingi á þriðjudaginn var. Þegar hafa á þrettánda þúsund undirskrifta safnast gegn þjóðgarðinum.

Falleg hugsun en óviðunandi frumvarp

„Við erum öll sammála um að vilja vernda náttúru og hagsmuni þjóðarinnar en erum samt sem áður ekki sammála stofnun þjóðgarðs. Svona stórt mál þarf að vinna í sátt við þjóðina og passa að það komi ekki niður á þeim réttindum og hefðum sem fylgt hafa landsmönnum um aldir og tilheyra kynslóðum framtíðar,“ segir Íris Friðriksdóttir, formaður umhverfisnefndar Ferðaklúbbsins 4x4, í samtali við mbl.is, en hún situr einnig í ungliðanefnd samtakanna.

Íris Friðriksdóttir, formaður umherfisnefndar Ferðaklúbbsins f4x4.
Íris Friðriksdóttir, formaður umherfisnefndar Ferðaklúbbsins f4x4. Ljósmynd/Aðsend

„Miðhálendisþjóðgarður er falleg hugsun,“ segir Snædís Arnardóttir, sem situr einnig í umhverfisnefnd og ungliðanefnd sömu samtaka, en bendir á að frumvarpið sé ekki ásættanlegt, þar sem það sé óskýrt og verið sé að koma í gegn óraunhæfum markmiðum með mikilli valdastýringu.

Bendir hún á að ráðherra sé veitt heimild til þess að útfæra veigamikil atriði í reglugerð, þar með talið um umferð gangandi, tjöldun og auk þess þurfi sérstök leyfi fyrir samkomuhaldi án þess að það sé sérstaklega skilgreint.

Snædís Arnardóttir, í umhverfisnefnd og ungliðanefnd Ferðaklúbbsins f4x4.
Snædís Arnardóttir, í umhverfisnefnd og ungliðanefnd Ferðaklúbbsins f4x4. Ljósmynd/Aðsend

Þá komi ekki fram hvernig takmörkun á atvinnutengrdri starfsemi muni háttað innan þjóðgarðs og hvernig hann muni koma að stjórnun jaðarsvæða.

„Kostnaður við garðinn er áætlaður um þrír milljarðar á ári og kostnaðurinn við uppbyggingu hans er ekki innifalinn. Hvaðan á þessi peningur að koma? Borgum við undir garðinn í sérstökum sköttum? Verður gjaldtaka í garðinum þannig að aðeins þau efnuðu geta ferðast um náttúruna? Þannig að meðalfjölskyldan þurfi að spara sérstaklega til að sjá náttúruna í eigin landi? Eða verður kostnaðinum haldið í lágmarki með því að hafa salernisaðstöðu lokaða helming hvers mánaðar eins og stóð til í Vatnajökulsþjóðgarði. Er núna virkilega tíminn til að eyða slíkum pening og kröftum til þess eins að stofnanavæða hálendið?“ spyr Snædís.

Nú er talað um að náttúruverndarsjónarmið styðji hugmyndina að miðhálendisþjóðgarði. Teljið þið það rétt?

„Mikið er talað um aukna náttúruvernd og að passa þurfi upp á landið fyrir komandi kynslóðir. Samt sem áður er tekið fram að stofnun þjóðgarðs muni fjölga ferðum ferðamanna á svæðið, aðkoma svæða skuli verða aðgengilegri vegna samgöngubóta, þjónustumiðstöðva, gestastofa o.fl. Viljum við fá þessa svokölluðu láglendisvæðingu, fleiri þjónustustöðvar, rukkanir inn á svæði?“ svarar Íris. 

Bætir hún við að þjóðgarðsvæðingin sé raunar auglýsingastimpill fyrir Ísland  slíkt sé í mótsögn við þá áætun að vernda viðkvæm víðerni og viðhalda óbyggðaupplifuninni.

„Megnið af hálendinu í dag verndar sig sjálft þar sem aðgengi er misgott og almennt ekki verið að ota viðkvæmum svæðum að ferðamönnum,“ segir hún.

Þjóðgarðsverðir geti lokað svæðum fyrirvaralaust

Íris segir að þjóðgarðsverðir geti stöðvað för fólks hafi þeir grun um að viðkomandi muni skaða náttúruna eða hafi ekki leyfi fyrir för sinni en engin sönnun þurfi að liggja fyrir  þar með sé hægt að eyðileggja upplifun fólks þó svo að ákvörðunin sé kæranleg til æðra stjórnvalds.

Þjóðgarðsverðir hafi heimild til að loka hálendisþjóðgarði eða einstökum svæðum hans fyrirvaralaust ef þeir telja þörf á því, sbr. 25. grein frumvarpsins. Undir þetta fellur slæm færð á vegum eða vont veður í vændum.

„Þetta er forræðishyggja og brot á ferðafrelsi og ákvörðun manna um sín eigin ferðalög. Gestir ferðast um í þjóðgarðinum á eigin ábyrgð, sbr. 19. grein frumvarpsins, og ef virkileg náttúruvá steðjar að eru það almannavarnir sem eiga að stýra ferðinni, ekki einhver Jón sem er þjóðgarðsvörður. Möguleikarnir á misnotkun þessa valds eru margir og stórhættulegir í augum ferðafólks. Þegar þjóðgarðurinn er stofnaður verða þau boð og bönn óafturkræf,“ segir Íris og bætir Snædís við:

„Það sem við sjáum fram á verði stofnun þjóðgarðsins að veruleika er gjörbreytt ferðamenning og veruleg skerðing á ferðafrelsi. Hægt og rólega verði fáförnum slóðum lokað og sögur af ferðum fólks um þau svæði verði aðeins þjóðsögur, við erum í raun rétt að byrja okkar ævintýri á fjöllum og ætlum okkur að ferðast og upplifa náttúruna eins og foreldrar okkar gerðu. En með miðhálendisþjóðgarð sem stofnaður er með yfirgangi og hroka og býður upp á slíka skerðingu ferðafrelsis sem frumvarpið lætur í ljós sjáum við ekki fram á að þessi draumur verði að veruleika,“ segir hún að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert