Borgarstjórnarfundurinn of langur fyrir eitt myndband

Upptakan af fundi borgarstjórnar sem er á vef borgarinnar lýkur …
Upptakan af fundi borgarstjórnar sem er á vef borgarinnar lýkur eftir sléttar 12 klukkustundir. Skjáskot/Youtube

Borgarstjórnarfundi Reykjavíkur lauk fyrir skömmu, en þá hafði hann staðið yfir í rúmlega fjórtán og hálfa klukkustund, en meðal þess sem var á dagskrá fundarins var fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir komandi ár og fimm ára áætlun borgarinnar. Fundurinn, sem fór fram í gegnum fjarfundarbúnað, hófst klukkan 10:00 og lauk ekki fyrr en um 00:30 í nótt.

Alla jafna er hægt að fylgjast með útsendingu frá borgarstjórnarfundinum í gegnum streymi á Youtube. Lengd fundarins í þetta skiptið truflaði hins vegar áhorf almennings þar sem lengd einstakra myndbanda úr streymi á Youtube getur aðeins verið 12 klukkustundir. Fyrir þá sem ætluðu að athuga með útsendinguna á vef Reykjavíkurborgar eftir klukkan tíu í kvöld blasti því aðeins upptaka sem endaði í miðri atkvæðagreiðslu sem Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, stýrði.

mbl.is hefur það hins vegar fyrir víst að borgarstjórnarfundurinn hafi haldið áfram án teljandi truflana vegna þessa, en alla jafna á að verða til önnur myndbandsupptaka þegar streymið fer yfir þessi mörk. Áhugasamir sem ætluðu að geyma áhorfið til morguns ættu því ekki að þurfa að örvænta.

Fjárhagsáætlunin, fimm ára áætlunin, fjárfestingaáætlun og græna planið voru öll samþykkt á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert