Eftirlýstur maður hringdi sjálfur í lögreglu

Gríðarlegur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Mikið var um hávaðarmál og minniháttar bruna í ruslagámum auk tilkynninga um ölvaða ökumenn. 

Fram kemur í dagbók lögreglu að tilkynnt hafi verið um grunsamlegar mannaferðir um hálftíma eftir miðnætti, þar sem aðili virtist vera að kíkja inn um búðarglugga. Engin fannst sem svaraði til lýsingar og engin merki um innbrot voru á staðnum. Þá hringdi maður í lögreglu 15 mínútum fyrir eitt í morgun og sagðist vera eftirlýstir. Í ljós kom að maðurinn var sannarlega eftirlýstur og var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknarhagsmuna. 

Klukkan 2:43 var síðan tilkynnt um líkamsárás í austurbæ, en þar höfðu nokkrir menn ráðist á einn. Meintir gerendur voru handteknir nálægt vettvangi og er málið til rannsóknar hjá lögreglu. Þá var skömmu fyrir klukkan 4 í morgun tilkynnt um hóp af fólki sem vildi komast í partí á hóteli í borginni. Starfsmenn hótelsins sögðu hópnum að þegar væri hámarksfjöldi í herberginu og þurftu gestirnir frá að hverfa. 

Skutu flugeldum að húsum 

Um tuttugu mínútur eftir miðnætti var tilkynnt um aðila sem skutu þá flugeldum að húsum. Aðilar voru farnir af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn. Þá var tilkynnt um samkvæmishávaða skömmu fyrir klukkan 2 í morgun vegna teitis. Húsráðendur ætluðu að gera ráðstafanir svo nágrannar gætu sofið. Um tíu mínútur í fjögur var síðan tilkynnt um slagsmál í fjölbýlishúsi, en talsverður viðbúnaður var vegna málsins. Tveir aðilar voru handteknir á vettvangi og þurfti annar þeirra að leita sér aðhlynningar á slysadeild. 

Skömmu fyrir klukkan eitt var tilkynnt um teiti sem væri of fjölmennt. Þegar lögregla kom á staðinn var fjöldi innan takmarkana og ekki þörf á aðgerðum. Þá var klukkan 3:17 tilkynnt um slasaðan mann sem lá í götunni. Lögregla og sjúkralið voru send á staðinn. Reyndist málið vera minniháttar og líklega ölvunartengt.

Þá var rétt eftir klukkan 6 í morgun tilkynnt um mann liggjandi utandyra í snjóskafli. Þegar tilkynnandi reyndi að athuga líðan mannsins fældist hann og hljóp á brott. Maðurinn ekki borinn neinum sökum og ekkert var aðhafst frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert