Dreifa ösku við Gullfoss og Geysi

Duftker.
Duftker. AFP

Óráðlegt er að gefa dreifingu á ösku frjálsa hér á landi eins og stefnt er að í nýju frumvarpi Bryndísar Haraldsdóttur um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.

Þetta er mat sýslumannsins á Norðurlandi eystra en embættið fer með leyfisveitingar til dreifingar á ösku utan kirkjugarða, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Eins og fram hefur komið felur frumvarpið í sér nokkrar breytingar, til að mynda þær að fallið verði frá núverandi fyrirkomulagi um varðveislu og dreifingu á ösku utan kirkjugarða og heimilað verði að henni verði dreift án takmarkana og sérstaks leyfis.

Í umsögn sýslumanns um frumvarpið segir að síðustu ár hafi umsóknum um dreifingu ösku utan kirkjugarða fjölgað töluvert. Þær séu nú á bilinu 40-60 ár hvert og um það bil helmingur komi erlendis frá. Í þeim tilvikum komi aðstandendur með ösku hins látna hingað til að dreifa henni en oftast hafi viðkomandi engin tengsl við landið. Sýslumaður fellst á að rétt sé að endurskoða reglur enda sé núverandi fyrirkomulag „flókið og seinlegt“ og byggist á óljósum matsreglum. Þá hafi viðhorf í samfélaginu breyst frá lagasetningunni árið 2002.

Sýslumaður getur þess að útlendingar vilji oft fá að dreifa ösku ástvina á vinsælum ferðamannastöðum, svo sem yfir Gullfoss, undir Seljalandsfossi, við Geysi í Haukadal og við stuðlabergið í Reynisfjöru eða á svæðum í einkaeign.

„Líta verður svo á að dreifing ösku látinna sé jafnan persónuleg athöfn og ef hún fer fram innan um margmenni, eins og oft er á vinsælum ferðamannastöðum, verður að ætla að það geti valdið viðstöddum nokkrum óþægindum,“ segir í umsögninni. Að síðustu nefnir sýslumaður að hér á landi séu strangar reglur um líkbrennslu svo ljóst sé að aðeins aska verði eftir en engar jarðneskar leifar. Ekki sé hægt að tryggja slíkt komi aska að utan. Að þessu sögðu telur sýslumaður rétt að dreifing ösku verði áfram háð leyfisveitingu eða fari eftir nánari fyrirmælum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Loka