Finnur ekkert fyrir því að vera orðin 90 ára

Æðardúnn. Hólmfríður Una með æðardúnssængina góðu sem hún fékk í …
Æðardúnn. Hólmfríður Una með æðardúnssængina góðu sem hún fékk í afmælisgjöf. Hún segir hana svífa yfir sér. Ljósmynd/Katrín Guðrún

Una Hólmfríður Kristjánsdóttir fagnaði 90 ára afmæli sínu 12. apríl síðastliðinn. Una keyrir enn þá bílinn sinn þrátt fyrir stöðug mótmæli afkomenda, fer í daglega göngutúra og syngur með kirkjukórnum í Raufarhafnarkirkju.

„Ég fer að minnsta kosti í einn göngutúr á dag, í alla vega 45 mínútur. Svo fer ég í leikfimi fyrir eldri borgara, en hún hefur legið niðri í Covid-ástandinu,“ segir Una í samtali við Morgunblaðið.

Slær garðinn og hengir út þvottinn

Nágrannar Unu segja að um leið og geri gott veður sé þvotturinn hennar kominn út á snúru hjá henni og hún mætt í garðinn.

„Já ég slæ lóðina, svo þvæ ég þegar spáir góðu. Ég vil ekki þurrkara. Ég hengi út til að fá loft í þvottinn,“ segir Una.

Upphaflega stóð til að halda stóra veislu til að fagna tímamótunum en vegna Covid-faraldursins, sem hefur reyndar aldrei náð til Raufarhafnar, þurfti að taka nokkra snúninga á skipulagi veislunnar.

Úr varð að veisla var haldin í hollum þar sem nokkrir afkomendur komu í einu.

„Ég ætlaði ekkert að gera annað en bara labba hérna um eins og ég er vön að gera, svo varð sú gamla að slá í kökur og halda veislu. Það var bara veisla í fjóra daga, en ekki margir í einu,“ segir Una.

Una er fullbólusett og var því óhrædd við að fá gesti.

Meðal gjafa sem Una fékk var æðardúnsæng frá Icelandic Eider. Una kveðst hin ánægðasta með sængina og segir hana nánast svífa yfir sér.

„Og það er langömmubarnið mitt sem saumaði sængina, því hann er æðarbóndi má segja, í Fljótunum.“

Þá fékk Una úr frá syni sínum og tengdadóttur þar sem hún var farin að sjá illa á úrið sem hún fékk frá frystihúsinu þegar hún var búin að vinna þar í 25 ár.

Úrið er þó í góðu standi.

Kvíðir mest að hætta að keyra

Una segir ekki finna mikið fyrir aldrinum. Hún þarf þó að fara á hverju ári inn á Húsavík og láta endurnýja ökuskírteini sitt, sem hún segir bara vera peningaplokk, enda ekkert að sjóninni hennar.

„Ég kvíði því þó mest að missa prófið, ég verð að geta farið út í búð. Þó að ég þurfi ekki mikið fyrir mig eina, þá þarf að komast í búðina,“ segir Una.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »