Sleikja sól og svamla í sjónum á Hauganesi

Heitu pottarnir á svæðinu eru fjórir og þessi er með …
Heitu pottarnir á svæðinu eru fjórir og þessi er með leiktækjum. mbl.is/Helgi Bjarnason

Sandvíkurfjara á Hauganesi við Eyjafjörð hefur að undanförnu verið heitur reitur og fjöldi fólks komið þangað á hverjum degi til að sleikja sól og svamla í sjó. Ágæt aðstaða; búningsklefar með snyrtingu og heitir pottar, hefur verið sett upp í kambi fjörunnar sem snýr mót suðri, þar sem nýtur sólar allan daginn. „Sennilega er fjaran hér á Hauganesi sú eina hér á Norðurlandi sem snýr móti suðri og fyrir vikið eru hér frábærar aðstæður frá náttúrunnar hendi. Samkvæmt staðháttum var farið í uppbyggingu hér, en yfirleitt snúa sandfjörur í þessum landshluta móti norðri, vestri eða austri,“ segir athafnamaðurinn Elvar Reykjalín.

Þorpið hefur tækifæri

Hauganes er við utanverðan Eyjafjörð að vestan, og tilheyrir Dalvíkurbyggð. Ríflega 100 manns búa í þorpinu, þar sem sjávarútvegur hefur jafnan verið undirstaða. Með fjölskyldu sinni á Elvar og rekur salfiskverkunina Ektafisk en hefur í vaxandi mæli snúið sér að ferðaþjónustu. „Í raun hefur Hauganes eðlisbreyst,“ segir Elvar. „Þetta var sjávarpláss og er vissulega enn, nema hvað ferðaþjónustan er komin sterk inn. Baðstaður í fjöru, heitt vatn, hvalaskoðun, tjaldsvæði og veitingahús. Þetta allt hefur tekist að virkja í eina heild sem skapar þorpinu tækifæri.“

Elvar Reykjalín.
Elvar Reykjalín. mbl.is/Sigurður Bogi

Byrjað var að útbúa baðaðstöðu á Hauganesi árið 2015 sem svo hefur verið bætt við, í takti við sífellt meiri aðsókn. Síðustu vikur hefur raunar verið bongóblíða á Norðurlandi sem laðað hefur ferðamenn á svæðið og þá kemur Hauganes sterkt inn.

Frá náttúrunnar hendi er frábær baðströnd á Hauganesi þangað sem …
Frá náttúrunnar hendi er frábær baðströnd á Hauganesi þangað sem fólk hefur flykkst undanfarið til að njóta sumars og sólarblíðu. Ljósmynd/Elvar Reykjalín

„Í fyrra og nú í sumar varð sprenging í aðsókn í Sandvíkurfjöru. Gestir eru að stærstum hluta íslenskt fjölskyldufólk, sem gjarnan dvelst hér á tjaldsvæðinu sem hefur verið stækkað til bráðabirgða. Nú stendur til að bæta tjaldaðstöðuna varanlega og ýmsar skemmtilegar hugmyndir eru um hvað gera skuli til eflingar ferðaþjónustu hér. Umsókn um deiliskipulag fyrir þá breytingu er hjá Dalvíkurbyggð en þeir sem þar ráða eru að mér finnst jákvæðir í garð þróunar mála í ferðamannaþorpinu, eins og ég kalla Hauganes,“ segir Elvar Reykjalín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »