Tónlistarstjörnur með smiðju fyrir börn á Þingeyri

Bríet og Rubin miðla reynslu sinni til yngri kynslóðarinnar.
Bríet og Rubin miðla reynslu sinni til yngri kynslóðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Seinni hluta júlímánaðar var haldin tónlistarsmiðja fyrir börn í félagsheimilinu á Þingeyri. Ein vinsælasta söngkona landsins, Bríet Ísis Elfar, sem alla jafna er kölluð Bríet, stóð fyrir smiðjunni í samstarfi við þá Þorleif Gauk Úlfarsson tónlistarmann og Rubin Pollock, gítarleikara hljómsveitarinnar Kaleo.

Til stóð að þau kæmu fram á tónleikum í garðinum hennar Láru, sem er tónleikaröð á Þingeyri haldin í samstarfi við heimamanninn Pétur Albert Sigurðsson. Markmið smiðjunnar var að gera leik úr tónlistinni og sá tónlistarfræjum fyrir framtíðina.

„Maður er að planta fræjum, reyna að fá þau til að skemmta sér í tónlistinni og sjá að tónlist er ekki bara að sitja einn inni í stofu að lesa eftir nótum, þetta er líka ákveðinn leikur og að sýna þeim gleðina í því og það getur verið neisti sem lifir út ævina. Það er í raun það sem okkur finnst mikilvægast,“ segir Þorleifur Gaukur Úlfarsson.

Krakkarnir flytja frumsamið lag á tónleikum í garðinum hennar Láru.
Krakkarnir flytja frumsamið lag á tónleikum í garðinum hennar Láru. Ljósmynd/Aðsend

Nýttu ferðina vestur til þess að kynnast krökkunum 

„Við vorum að fara að spila á tónleikum á Þingeyri og þá datt okkur þetta til hugar, að það væri gaman að nýta ferðina og kynnast krökkunum fyrir vestan,“ segir Bríet í samtali við mbl.is.

Hún segir smiðjuna hafa staðið yfir í þrjá daga og að krakkar á öllum aldri hafi mætt. „Það var frítt fyrir alla að koma sem höfðu áhuga, eina skilyrðið var bara að hafa áhuga á tónlist. Við töluðum um að það væri fínt að fá krakka á aldrinum tólf til sextán ára, en svo komu bara margir yngri krakkar líka sem var mjög gaman.“

Gaukur með gítarinn
Gaukur með gítarinn Ljósmynd/Aðsend

Bríet segir verkefnið ekki hafa snúist um peninginn, en frítt var fyrir krakkana að vera með og þau gerðu þetta í raun launalaust.

Spurð hvort til standi að endurtaka leikinn og þá mögulega á öðrum stað segir Bríet: „Þetta átti bara að vera þetta eina skipti, en maður veit aldrei. Við erum bara hress, kát og klár í allt.“

Krakkarnir í smiðjunni sömdu að endingu lag með leiðbeinendum sínum og var afraksturinn lagið „Þrjár til tvær skjaldbökur“. Krakkarnir fluttu svo lagið á stóra sviðinu í garðinum hennar Láru á Þingeyri.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert