Níu Íslendingar á bannlista Rússa

María Sakaróva er talskona rússneska utanríkisráðuneytisins.
María Sakaróva er talskona rússneska utanríkisráðuneytisins. AFP

Níu Íslendingar hafa verið settir á svartan lista rússneskra stjórnvalda, og verður þeim því meinað að ferðast til Rússlands. 

Þetta kemur fram á heimasíðu rússneska utanríkisráðuneytisins, en þar birtist fyrr í dag yfirlýsing um gagnaðgerðir Rússa vegna þátttöku Íslands, Noregs, Grænlands og Færeyja í refsiaðgerðum vesturveldanna. 

Beinast aðgerðir Rússa að níu Íslendingum, 16 Norðmönnum, þremur Grænlendingum og þremur Færeyingum. 

Ekki kemur fram í yfirlýsingu Rússa hvaða fólk þetta er, en í henni segir að í þessum hópi séu þingmenn, ráðherrar og fólk úr viðskiptalífi, menntaheiminum og fjölmiðlum sem hafi ýtt undir and-rússneska umræðu og mótað stefnu sem beinist gegn Rússlandi. 

Í yfirlýsingu íslenska utanríkisráðuneytisins við mbl.is um málið segir að það hafi engar upplýsingar um málið umfram það sem komið hafi fram í fjölmiðlum, og að ef á reyni verði brugðist við því þá. 

mbl.is