Niðurstöðurnar ekki jákvæðar fyrir yfirmenn

Hanna Lind telur að niðurstöður rannsóknarinnar séu áfellisdómur yfir stjórnendum …
Hanna Lind telur að niðurstöður rannsóknarinnar séu áfellisdómur yfir stjórnendum Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísbendingar eru um að Icelandair hafi sniðgengið flugfreyjur og þjóna sem beittu sér í kjaradeilunni árið 2020 þegar kom að því að draga uppsagnir til baka í júlí sama ár. Þetta kemur fram í niðurstöðum meistararitgerðar Hönnu Lindar Garðarsdóttur í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands.

Markmið rannsóknar hennar var að skoða upplifun og eftirmála flugfreyja og þjóna af kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair sem fór að mestu fram árið 2020.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru að hennar mati áfellisdómur yfir stjórnendum Icelandair og líkir Hanna aðgerðum félagsins við brotastarfsemi.

Viðmælendur hennar voru ellefu talsins, bæði starfandi flugfreyjur og þjónar hjá Icelandair og flugfreyjur og þjónar sem misstu vinnuna í kjarabaráttunni. Gengið var framhjá öllum viðmælendum sem höfðu tjáð sig opinberlega meðan deilurnar stóðu yfir, þegar uppsagnir voru afturkallaðar.

Hanna starfaði sjálf sem flugfreyja hjá Icelandair þegar kjaradeilan stóð …
Hanna starfaði sjálf sem flugfreyja hjá Icelandair þegar kjaradeilan stóð yfir. Ljósmynd/Aðsend

Áratuga hefð hefur verið fyrir því hjá Icelandair að styðjast við starfsaldurskerfi í ráðningum. Eftir kjarabaráttuna árið 2020 var sú hefð brotin í fyrsta sinn. Félagsdómur komst svo að þeirri niðurstöðu að félaginu hafi borið að afturkalla uppsagnir í starfsaldur, líkt og kveðið er á um í kjarasamningi. Með dómnum var viðurkennt að brotið hefði verið gegn rétti 69 flugfreyja.

„Rannsóknin stóð mér nærri“

„Niðurstöðurnar eru ekki jákvæðar fyrir yfirmenn hjá Icelandair,“ segir Hanna um niðurstöður rannsóknarinnar í samtali við mbl.is. Þær hafi þó ekki komið henni á óvart því hún starfaði sjálf sem flugfreyja hjá Icelandair og var hluti af skipulagsheildinni þegar kjaradeilan stóð yfir.

„Rannsóknin stóð mér nærri þar sem ég starfaði sem flugfreyja hjá Icelandair á meðan kjaradeilan stóð yfir, en í rauninni gerði ég mér ekki grein fyrir öllu sjálf fyrr en ég byrjaði að rannsaka þetta og tala við viðmælendur.“ Margt hafi þó ekki átt við hana því hún fékk endurráðningu sumarið 2021.

Hanna bendir á að niðurstöðurnar séu vissulega bara útfrá hennar viðmælendum, en margt bendi til þess að það hafi verið raunin að þeir sem höfðu sig í frammi, hafi ekki fengið endurráðningu.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru í samræmi við það sem þrjár flugfreyjur og einn flugþjónn sögðu í viðtali við mbl.is fyrr á þessu ári. Uppsagnir þeirra voru ekki afturkallaðar eða þau endurráðin þrátt fyrir flekklausan áratugalangan starfsferil hjá fyrirtækinu. Tvö þeirra fengu það staðfest að eitthvað sem þau sögðu hafi haft áhrif.

Ekki í takt við leik- og samskiptareglur

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að starfshættir Icelandair hafi ekki verið í takt við leik- og samskiptareglur sem til staðar eru á íslenskum vinnumarkaði. Með aðgerðum sínum í kjarabaráttunni hafi Icelandair sett íslenska vinnumarkaðslíkanið í uppnám.

Aðgerðirnar hafi verið fordæmalausar, en Icelandair hafi meðal annars sagt upp öllum starfandi flugfreyjum og -þjónum í kjarabaráttunni. Viðmælendur Hönnu töldu að uppsagnirnar hefðu verið þvingunaraðgerðir og hræðsluáróður sem áttu að fá flugfreyjur og þjóna til að semja. En lögum samkvæmt er ólöglegt að nota uppsagnir sem vopn í kjaradeilu.

Það setti einnig íslenska kjarasamningshefð í uppnám að í miðjum samningaviðræðum á milli deiluaðila hafi Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, haft beint samband við flugfreyjur og -þjóna, framhjá lögbundinni samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands, sem er bannað.

Niðurstöðurnar bendi til þess að stjórnendur Icelandair hafi sett sig í ákveðna þolendastöðu og nýtt sér kórónuveirufaraldurinn til að setja ábyrgð félagsins yfir á flugfreyjur og -þjóna með það að markmiði að skerða réttindi þeirra enn frekar.

Starfsánægja hafi áhrif á öryggismenningu

Hanna vonast til þess að aðgerðir Icelandair séu ekki eitthvað sem koma skal á íslenskum vinnumarkaði. „Þetta er bara brotastarfsemi. Ég vona að svona brotastarfsemi nái ekki fótfestu á íslenskum vinnumarkaði og að vinnumarkaðurinn haldist heilbrigður. Ég vona að þessi rannsókn sýni hvað er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins fari að leik- og samskiptareglum sem eru í gildi á íslenskum vinnumarkaði.“

Þá segir Hanna að rannsóknir sýni fram á að aðgerðir, eins og að skapa kergju á milli samstarfsfélaga um borð, geti haft áhrif á öryggismenningu um borð í vélunum. Öryggismenning mælist hærri hjá fyrirtækjum þar sem starfsmenn sem eru ánægðir í starfi, líður vel og traust er til staðar.

Starfsfólk þurfi að geta leitað til yfirmanna án þess að vera hrætt

Einnig kemur fram að starfandi viðmælendur upplifi í dag starfsóöryggi og líði ekki vel með að þurfa leita til yfirmanna ef eitthvað kemur upp. Samantekt á niðurstöðum gefur til kynna að stjórnendur Icelandair og yfirmenn flugáhafna eigi nokkuð langt í land við að endurvinna traust flugfreyja og þjóna eftir kjarabaráttuna.

„Það þarf að vera traust á milli yfirmanna og starfsfólks. Það er mikilvægt að starfsfólk geti leitað til yfirmanna án þess að vera hrætt. Það var eitt af því sem niðurstöðurnar sýndu, fólk var hrætt. Svona óttastjórnun er ekki góð.“

mbl.is