Aldrei fleiri íbúðir í byggingu á Suðurlandi

Uppbyggingin hefur aldrei verið meiri á Suðurlandi.
Uppbyggingin hefur aldrei verið meiri á Suðurlandi.

Íbúðir í byggingu utan höfuðborgarsvæðisins hafa ekki verið fleiri síðan árið 2008. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans.

Íbúðaverð hefur þá hækkað enn hraðar utan höfuðborgarsvæðisins heldur en innan þess en að öðru leyti þróast með svipuðu móti á höfuðborgarsvæðinu.

Mikil uppbygging á Suðurlandi

Uppbygging er mest á Suðurlandi, þar sem yfir 1.100 íbúðir eru nú í byggingu og hafa aldrei verið fleiri. 

Um síðustu áramót voru um 900 íbúðir í byggingu á Suðurlandi og höfðu þær aldrei verið fleiri. Í lok júlí eru hins vegar um 1.100 íbúðir í byggingu og því talið ljóst að mikil uppbygging sé í augsýn á Suðurlandi.

Á Vesturlandi og Suðurnesjum eru tæplega 500 íbúðir í byggingu, um 350 á Norðurlandi eystra og undir 100 íbúðir á Austurlandi, Norðurlandi vestra og Vesturlandi.

Vísitala markaðsverðs hækkað

Lágir vextir og breyttar neysluvenjur í kjölfar faraldursins hafa aukið eftirspurn eftir húsnæði verulega, sem hefur valdið hækkun á íbúðaverði.

Vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hefur hækkað um 22% í tilviki sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu og fjölbýli um 24% síðan í júlí í fyrra. 12 mánaða breyting vísitölunnar utan höfuðborgarsvæðisins hefur hins vegar verið meiri, eða um 29%.

Ef miðað er við febrúar 2020 er hækkunin nokkuð svipuð eða frá 45%-47% hvort sem litið er á sérbýli eða fjölbýli, utan höfuðborgarsvæðisins eða innan þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert