Segir þrot ekki í sjónmáli

Heilsugæslan Urðarhvarfi. Einar Þór Sverrisson tekur undir með Gunnlaugi Sigurjónssyni …
Heilsugæslan Urðarhvarfi. Einar Þór Sverrisson tekur undir með Gunnlaugi Sigurjónssyni varðandi rekstrarlegt misræmi gagnvart opinberri heilsugæslu en segir gæsluna í Urðarhvarfi hvergi nærri á grafarbakkanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Þór Sverrisson, stjórnarformaður Heilsugæslu Reykjavíkur ehf., sem rekur Heilsugæsluna Urðarhvarfi, vill koma því á framfæri, vegna fréttar í Morgunblaðinu í morgun, að sú staða sem þar er lýst eigi ekki við reksturinn í Urðarhvarfi.

Í téðri frétt, sem skrifuð er upp úr Dagmálum Morgunblaðsins þar sem rætt var við Gunnlaug Sigurjónsson, lækni og stjórnarformann Heilsugæslunnar Höfða, segir Gunnlaugur einkareknar heilsugæslustöðvar standa höllum fæti miðað við þær sem eru á framfæri ríkisins.

Til dæmis séu tækjakaup við stofnsetningu einkareknu stöðvanna fjármögnuð að fullu af sjálfsaflafé þeirra á meðan slíkur kostnaður standi utan við fjármögnunarlíkan opinberra stöðva. Þá bendir Gunnlaugur á aðra mismunun er hann segir felast í því að Landspítalinn neiti að þjónusta einkareknar heilsugæslustöðvar, sem eru fjórar af 19 á höfuðborgarsvæðinu, fyrir sama verð og hinar opinberu þegar kemur að sýnarannsóknum.

Þjónustunotendur þurfi ekki að óttast

„Ég held að það trufli að vera með samkeppni. Við höfum ekki átt í erfiðleikum með að manna okkar heilsugæslur ólíkt því sem opinbera heilsugæslan hefur átt,“ er enn fremur haft eftir Gunnlaugi sem segir einareknu stöðvarnar eiga í vök að verjast, þær séu reknar með viðvarandi tapi og stefni í þrot fari sem horfir.

Einar Þór segir að Heilsugæslan Urðarhvarfi telji að leiðrétta þurfi ýmis atriði í tengslum við rekstur einkarekinna heilsugæslustöðva. Hann tekur undir þann málflutning Gunnlaugs að einkareknu stöðvarnar glími við verulegt rekstrarlegt misræmi gagnvart opinberri heilsugæslu en það sé af og frá að rekstur Heilsugæslunnar Urðarhvarfi stefni í þrot. Starfsfólk og þjónustunotendur þurfi ekki að óttast neitt slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert