Ísland hafnaði í sjötta sæti

Íslenska kokkalandsliðið að lokinni keppni.
Íslenska kokkalandsliðið að lokinni keppni. Ljósmynd/Brynja Kr. Thorlacius

Íslenska kokkalandsliðið hafnaði í 6. sæti í heimsmeistaramótinu í matreiðslu sem lauk síðdegis í dag í Lúxemborg eftir vikulanga keppni.

Svisslendingar báru sigur úr býtum með alls 93,01 stig, Svíar tóku annað sætið með rúmlega 90,26 stig og Norðmenn höfnuðu í því þriðja með 90,13 stig, aðeins 0,13 stigum á eftir nágrannaþjóðinni.

Íslenska landsliðið keppti á laugardaginn í þriggja rétta heitum matseðli þar sem liðið hafnaði í þriðja sæti með gull-árangri. Seinni atrennan var á þriðjudaginn þegar keppt var í 13 rétta „fine-dining“ máltíð fyrir 12 manns, svokölluðu „Chef's table“. Þar hafnaði Ísland í 6. sæti með silfur-árangri.

Svisslendingar fóru með sigur af hólmi.
Svisslendingar fóru með sigur af hólmi. Ljósmynd/Brynja Kr. Thorlacius

Tveggja ára undirbúningur

„Við stefndum ofar en ef við skoðum stigatöfluna þá er þetta hnífjafnt þarna efst, enda er þetta heimsmeistarakeppni, best að gleyma því ekki,” er haft eftir Þóri Erlingssyni, forseta Klúbbs matreiðslumeistara í fréttatilkynningu.

„Við eru þakklát fyrir þennan árangur – það hafa allir lagt mjög mikið á sig og þetta er búið að vera löng og ströng vegferð, frá því að við byrjuðum að undirbúa okkur fyrir um það bil tveimur árum.” 

Næsta verkefni íslenska liðsins eru Ólympíuleikarnir í Stuttgart sem fara fram í febrúar 2024.

Kokkalandsliðið skipa:

Þjálfari:
Ari Þór Gunnarsson, Fastus

Fyrirliði:
Sindri Guðbrandur Sigurðsson, veitingastaðnum Héðni Kitchen Bar

Aron Gísla Helgason, veitingastaðnum Héðni Kitchen Bar
Gabríel Kristinn Bjarnason, veitingastaðnum Héðni Kitchen Bar
Ísak Darri Þorsteinsson, veitingastaðnum Tides
Erla Þóra Bergmann, Pálmadóttir veitingastaðnum Fjallkonunni
Jakob Zarioh S. Baldvinsson, veitingastaðnum Sumac 
Sveinn Steinsson, Eflu verkfræðistofu 
Ísak Aron Jóhansson, Lux veitingum
Chidapha Kruasaeng, Mosfellsbakaríi og HR konfekti
Ívar Kjartansson, veisluþjónustunni Réttinum
Aþena Þöll Gunnarsdóttir, veitingastaðnum Fiskfélaginu
Hringur Oddsson, veitingastaðnum Tides
Marteinn Rastrick, Lux Veitingum

mbl.is