Kynfræðingurinn Indíana Rós vissi frá framhaldsskólaaldri að hún vildi læra kynfræði en hún fagnar því að umræðan um kynlífsánægju kvenna hafi opnast á síðastliðnum árum.
Hún fór um víðan völl í samtali við þau Regínu Ósk og Yngva Eysteins í Helgarútgáfunni síðastliðinn laugardag og ræddi meðal annars um kynfræðslu, kynfræðibransann á Íslandi, kynlífkynlífsráðgjöf og kynlífstæki.
Aðspurð segist hún ekki vera sammála Simma Vill sem velti því fyrir sér á dögunum hvort íslenskar konur væru kynsveltar og að það gæti verið ástæðan fyrir því að kynlífstækjaverslunum gengur svo vel um þessar mundir.
„Ég held það sé meira að umræðan um sjálfsfróun, fullnægingar kvenna og kynlífsánægju kvenna – Ég meina eins og ef ég hugsa um kynfræðsluna mína. Þá var það eitthvað: Strákar eru með typpi. Þeir fá það, þeir fá sáðlát. Konur fara á túr. Og hérna eru upplýsingar um túr. Þið verðið óléttar og þetta er allt ömurlegt og hrikalegt. En svo er það bara hey: Það er snípur þarna? Vá, snertum hann aðeins. Hey, það er tæki sem getur hjálpað mér með það,“ lýsti Indíana.
„Ég held það sé frekar það heldur en að við séum eitthvað kynsveltar,“ sagði hún sem fagnar því að konur séu komnar með meiri rödd og að mýtur um kynlífstæki séu smátt og smátt að hverfa.
Hlustaðu á viðtalið við Indíönu í heild sinni hér að neðan.