Áhyggjur af þróuninni ástæða framboðsins

Elva Hrönn Hjartadóttir, formannsframbjóðandi í VR, leggur starf sitt að veði með framboðinu, en hún er starfsmaður VR. Það sé til vinnandi til þess að koma á sátt með félagið og í verkalýðshreyfingunni, sem gerist ekki nema með nýjum formanni.

Elva Hrönn segist hafa áhyggjur af þróun í launþegahreyfingunni upp á síðkastið, en það sé meðal annars ástæðan fyrir mótframboði sínu gegn sitjandi formanni VR, Ragnari Þór Ingólfssyni. Hún segist óánægð með hann og aðferðir hans, sem hafi misboðið réttlætiskennd sinni.

Hún jánkar því að það sé ekki lítil ákvörðun að fara í mótframboð gegn sitjandi formanni félagsins, ekki síst í ljósi þess að hún sé starfsmaður VR og sé því að leggja starf sitt undir. „Í samtali við mína stjórnendur þá varð það niðurstaðan að það yrði best að ég færi í uppsögn ef þessu vindur ekki fram eins og ég vona.“

Sátt í verkalýðshreyfingunni mikilvægust

Hún segir helstu áherslu sína með framboðinu vera að ná sáttum innan verkalýðshreyfingarinnar, þar sem mikil átakamenning hafi ráðið ríkjum að undanförnu ekki síst innan VR og þar sé Ragnar Þór samnefnarinn.

„Við erum ekki að fara að ná því sem við þurfum að ná ef við stöndum ekki saman. Og ef við erum endalaust í innbyrðis átökum, þá erum við ekki að einbeita okkur að því sem raunverulega skiptir máli, sem eru hagsmunir félagsfólksins okkar og almennings í landinu,“ segir Elva Hrönn.

Farið er vítt yfir sviðið í viðtali Dagmála við Elvu Hrönn, sem birt var í dag og sjá má í heild sinni hér. Dagmál er streymi Morgunblaðsins og er opið öllum áskrifendum.

Formannskosning í VR hófst í dag og stendur til næsta miðvikudags. Hún fer fram á vef félagsins, vr.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert