Net­á­rásir á vefi Al­þingis og Stjórnar­ráðs

Vefur Stjórnarráðsins er skotmark.
Vefur Stjórnarráðsins er skotmark. mbl.is/Kristinn Magnússon

Netárásir hafa verið gerðar á vefi Alþingis og Stjórnarráðsins. Verið er að greina árásirnar sem virðast vera af svipuðum toga og í kringum leiðtogafund Evrópuráðsins. 

Þetta staðfestir Guðmund­ur Arn­ar Sig­munds­son, for­stjóri netör­ygg­is­sveit­ar­inn­ar CERT-IS. 

„Við erum búin að virkja alla þessa samhæfingu þeirra rekstraraðila sem eru að sjá um þessi mál og þeir eru að skoða þetta núna. Bæði við greiningu á því hvað fór niður og af hverju hlutirnir fóru niður, ásamt því að virkja þessar varnir og viðbrögð sem við höfum til boða,“ segir Guðmundur. 

Gott að vera vakandi

Spurður hvort almenningur þurfi eitthvað að passa sig hvað varðar notkun á rafrænum skilríkjum segir Guðmundur engar vísbendingar vera uppi um slíkt enn sem komið er en gott sé að vera vakandi. 

„Við höfum vísbendingar um  hverjir séu skotmörk og enn sem komið er höfum við ekki séð Ísland.is eða í raun þessa rafræna auðkenningu sem sérstakt skotmark þar inni," segir Guðmundur og staðfestir að Alþingisvefurinn og vefur Stjórnarráðsins séu skotmörk. Skýrari svara um málið sé að vænta síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert