Úrskurðir kærunefndar birtir

Hús Útlendingastofnunar.
Hús Útlendingastofnunar. mbl.is/Hari

Kærunefnd útlendingamála hefur birt úrskurði í þremur málum fjögurra einstaklinga frá Venesúela, þar sem Útlendingastofnun hafnaði umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi. Var úrskurður stofnunarinnar staðfestur í tveimur málanna en í einu er lagt  fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í tveimur málunum kemst kærunefndin að þeirri niðurstöðu, að þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og frásagnir þeirra séu virtar í heild, með hliðsjón af aðstæðum þeirra í heimaríki, hafi þeir ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þeir hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því sé fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í ákvörðunarorðum Útlendingastofnunar var kærendum brottvísað og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kærendum veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið auk þess sem tekið var fram að yfirgefi þau landið sjálfviljug innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður. 

Í þriðja málinu segist kærunefndin telja, að í ljósi þeirra gagna sem liggi um heimaríki kæranda  séu aðstæður kæranda í Venesúela ekki með þeim hætti að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt því ákvæði er flóttamaður einnig útlendingur sem teljist ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði hann sendur aftur til heimalands síns. 

Kærunefndin staðfestir þannig úrskurð Útlendingstofnunar um að kærandinn eigi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi. Nefndin telur hins vegar að kærandinn uppfylli skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða þar sem hann hafi ríka þörf á vernd vegna heilsufars og erfiðra félagslegra aðstæðna hans í heimaríki sínu. Hann hafi lýst margvíslegu ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir í heimaríkinu og ekki sé ástæða til annars en að leggja þá frásögn hans til grundvallar. Telur  kærunefnd að upplýsingar um heimaríki kæranda bendi til þess að kærandi muni eiga á hættu mismunun sökum kynhneigðar sinnar auk þess sem staða hans sé verri en annarra í sömu stöðu þar sem hann njóti ekki stuðnings fjölskyldu sinnar. Þá sé staða hans sérstaklega erfið þar sem hann glími við sjúkdóm og erfitt geti verið að nálgast lyf og meðferð við því í heimaríki hans.

Úrskurðir kærunefndar útlendingamála

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert