Rútuslys á Holtavörðuheiði

Rútuslys varð á Holtavörðuheiði á þriðja tímanum í dag og hefur hópslysaáætlun viðbragðsaðila verið virkjuð.

Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

„Það er litlar upplýsingar að hafa sem stendur annað en að það er búið að virkja hópslysaáætlun vegna slyssins. Björgunarsveitir og viðbragðsaðilar eru á leiðinni og eru rétt að koma á slysstað,“ segir Jón Þór við mbl.is.

Hann segist ekki vita um fjölda þeirra sem var í rútunni en fyrstu fregnir herma að það sé ekki nema einn slasaður.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að Holtavörðuheiði hafi verið lokað vegna slyssins.

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Ljósmynd/Aðsend

29 manns í rútunni

Þyrla Landhelgisgæslunnar var fyrst á slysstað en hún var við æfingar við Bifröst.

„Þyrlan var í æfingaflugi við Bifröst þegar lögreglan á Norðurlandi vestra óskaði eftir því að þyrlan færi á staðinn. Við komuna á slysstað voru aðstæður metnar. Enginn þurfti flutning og er þyrlan er farin af vettvangi og er á leið í bæinn. Samkvæmt okkar upplýsingum voru 29 manns í rútunni,“ sagði Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert