Jákvæð þróun en líðan ekki eins góð

Nemendum með erlendan bakgrunn á Íslandi líður ekki eins vel …
Nemendum með erlendan bakgrunn á Íslandi líður ekki eins vel í skólanum og öðrum nemendum og þar munar meiru hjá nemendum af fyrstu kynslóð innflytjenda. Ljósmynd/Colourbox

Í flestum löndum skora nemendur sem hafa erlendan bakgrunn lægra á sviðum PISA en aðrir nemendur, sem getur tengst tungumálafærni eða efnahags- og félagslegri stöðu. Á Íslandi hefur jákvæð þróun átt sér stað því frammistöðumunur minnkaði hjá hluta þessa nemendahóps.

Þetta kemur í PISA-samantekinni.

Þá segir, að ólíkt nemendum sem ekki hafa erlendan bakgrunn þá hafi frammistaða nemenda sem flokkast undir innflytjendur af 2. kynslóð staðið í stað á milli fyrirlagna. Þetta eru nemendur sem fæddust hér á landi en eiga foreldra sem fæddust erlendis.

Nemendur af fyrstu kynslóð innflytjenda, sem fæddust erlendis og hafa því dvalið skemur á landinu og hafa minni íslenskufærni, lækkuðu hins vegar svipað og nemendur án erlends bakgrunns, segir í skýrslunni.

Marga skortir grunnhæfni á sviðum PISA

„Þrátt fyrir jákvæða þróun hjá hluta hópsins þarf að hafa í huga að í heild skortir nokkuð marga nemendur með erlendan bakgrunn engu að síður grunnhæfni á sviðum PISA, sérstaklega í lesskilningi (64%). Í þessu samhengi er mikilvægt að benda á að þróun frammistöðu nemenda á Íslandi eftir bakgrunni sýnir ótvírætt að hnignun í frammistöðu í heild verður ekki skýrð með frammistöðu nemenda sem hafa erlendan bakgrunn.“

Líður ekki eins vel og öðrum nemendum

Jafnframt segir, að nemendum með erlendan bakgrunn á Íslandi líði hins vegar ekki eins vel í skólanum og öðrum nemendum og þar muni meiru hjá nemendum af fyrstu kynslóð innflytjenda. Þetta sé svipað mynstur og hjá Norðurlöndunum og hluti skýringar gæti verið að þessir nemendur hafi dvalið skemur í landinu og búi við mismunandi aðstæður.

„Nemendur með erlendan bakgrunn upplifa þannig síður að þeir tilheyri í skólanum, þeir verða oftar fyrir einelti og upplifun þeirra af kennurum er ekki eins jákvæð hjá öðrum nemendum. Meirihluta nemenda með erlendan bakgrunn líður þó engu að síður vel í skólanum og hefur jákvæða upplifun af kennurum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert