Vinnueftirlitið rannsakar slysið í Grindavík

Hundruð viðbragðsaðila hafa komið að björgunarstarfinu síðustu sólarhringa.
Hundruð viðbragðsaðila hafa komið að björgunarstarfinu síðustu sólarhringa. mbl.is/Eggert Johannesson

Vinnueftirlitið mun vera í samstarfi við lögreglu, almannavarnir og bæjaryfirvöld í Grindavík til að meta stöðuna varðandi öryggi starfsfólks við áframhaldandi vinnu á svæðinu. Vinnueftirlitið hefur það hlutverk að rannsaka vinnuslys „og gildir það einnig í þessu tilviki“.

Þetta kemur fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurn mbl.is.

Leit að manni sem óttast er að hafi fallið ofan í sprungu á miðvikudagsmorgun er hann var einn við vinnu við jarðvegsþjöppun eftir sprungufyllingu í Grindavík var hætt í kvöld. 

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, sagði í samtali við mbl.is á miðvikudag að vinnu við að fylla í sprungur í Grindavík yrði frestað næstu daga. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði við mbl.is í gær að vinnunni yrði frestað fram yfir helgina.

Hætta í tengslum við skyndilega opnun á sprungum sem hafa …
Hætta í tengslum við skyndilega opnun á sprungum sem hafa verið kortlagðar innan bæjarmarka Grindavíkur hefur verið metin hærri.Slysstaðurinn er merktur á kortið með rauðum punkti. Kort/mbl.is

„Gildir einnig í þessu tilviki“

Í fyrirspurn mbl.is var leitað svara við því hvort Vinnueftirlitið hygðist skoða þetta mál og hvort stofnunin hefði þegar kallað eftir upplýsingum í tengslum við það. Þá var Vinnueftirlitið einnig spurt hvort það hygðist kalla eftir frekari stöðvun á vinnu í bæjum í ljósi þeirrar hættu sem gæti skapast við skyndilega opnun á sprungum.

„Vinnueftirlitið hefur það hlutverk að rannsaka vinnuslys í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að slys endurtaki sig við sömu eða sambærileg störf og gildir það einnig í þessu tilviki,“ segir í svari Vinnueftirlitsins.

Þar kemur einnig fram að stofnunin hafi fylgst vel með gangi mála og verið í góðu sambandi við lögreglu og almannavarnir.  

„Aðgerðarstjórn á svæðinu er í höndum lögreglustjórans á Suðurnesjum og er því miður ekki hægt að veita frekari upplýsingar en þær sem þegar hafa komið fram frá aðgerðarstjórn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert