Leiguþak, hærri bætur og hærri laun meðal krafna

Sólveig Anna svaraði spurningum félagsmanna um kjaraviðræður.
Sólveig Anna svaraði spurningum félagsmanna um kjaraviðræður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðfylking stéttarfélaga er með þá kröfu að launahækkanir nýrra kjarasamninga muni gilda afturvirkt frá 1. janúar. Samtök atvinnulífsins vilja hins vegar að launahækkanirnar gildi frá 1. febrúar.

Þetta kemur fram í myndbandi sem Efling birti á vefsíðu sinni í gær þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fer yfir stöðu kjaraviðræðna.

Sólveig svaraði í myndbandinu spurningum félagsmanna um stöðu kjaraviðræðna sem snéru að bótakerfum, launahækkunum og fleira.

Vilja hækka ýmsar bætur

„Meðal þess sem Sólveig Anna svarar í myndbandinu er spurning um afturvirkni launahækkana en eins og nefnt er hér að framan er ekki samkomulag um það hvenær þær eigi að taka gildi. Breiðfylkingin heldur hins vegar fast við að miða skuli við 1. Janúar,“ segir í tilkynningu sem fylgir myndbandinu.

Hærri leigubætur, húsnæðisbætur, barnabætur og vaxtabætur eru meðal þess sem kemur fram að séu meðal krafna breiðfylkingarinnar.

Einnig kemur fram að breiðfylkingin krefjist leiguþaks og betri uppsagnaverndunar fyrir verkafólk á almennum markaði.

Launahækkanir ef ekki dregur úr verðbólgu

Segir að breiðfylkingin leggji áherslu á að við kjarasamningsgerðina verði skapaðar aðstæður sem valdi því að hratt dragi úr verðbólgu, að hún lækki um 4 prósentustig á ári frá upphafi samningstíma. Ef þau markmið náist ekki verði verkafólki bætt upp kaupmáttarrýrnun vegna verðbólgu með auknum launahækkunum.

„Við teljum þessa nálgun áhrifaríkustu leiðina að þrýsta á fyrirtæki að hækka ekki verð,“ er haft eftir Sólveigu í tilkynningunni.

Fram kemur einnig að kjarasamningar stéttarfélaga verði ekki eins. Efling og Starfsgreinasambandið myndu gera álíka samninga á meðan að VR, LÍV og Samiðn gera öðruvísi samninga. Fram kemur að allt félagsfólk fái sömu launahækkanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert