Munu ekki hindra nemendur: Óljóst hve margir ganga út

Skólaverkfallið verður á þriðjudagsmorgun.
Skólaverkfallið verður á þriðjudagsmorgun. Ljósmynd/Samsett

Ómar Örn Magnússon, skólastjóri Hagaskóla, segir umfang skólaverkfallsins sem nokkrir nemendur hafa boðað til á þriðjudag vera óljóst en rúmlega 600 nemendur eru í skólanum. Í samtali við mbl.is segir hann að stjórnendur muni ekki koma í veg fyrir að nemendur taki þátt.

Verkfallið er til stuðnings Palestínu og ætla nemendur að ganga úr kennslustundum klukkan 10.30 á þriðjudag og hefjast mótmælin við Austurvöll klukkan 11.

Í tilkynningu frá nemendum Hagaskóla sem standa að verkfallinu segir að vonast sé til að allir nemendur sem séu sammála málstaðnum taki þátt. Þá segir að vitað sé til þess að fleiri skólar ætli að taka þátt, þar á meðal framhaldsskólar. 

„Við vonum að allir grunnskólanemar, menntaskólanemar og háskólanemar taki þátt með okkur að berjast fyrir frjálsri Palestínu!“

Á ekki von á að starfsfólk taki þátt

Ómar segist vita lítið um skólaverkfallið fyrir utan það sem hefur birst í fjölmiðlum. Þá hefur hann heyrt í nokkrum nemendum. 

„Ég geri mér ekki grein fyrir hvað verður eða hvernig,“ segir hann. 

Skólastjórnendur muni ekki biðla til nemenda að taka ekki þátt í verkfallinu. 

Spurður hvort að kennarar og annað starfsfólk hyggist taka þátt í verkfallinu segist Ómar ekki hafa heyrt um það, „og ég á ekki von á því“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert