Sigríður Dögg vænir Úlfar um karlrembu

Sigríður segir að ummæli Úlfars dæmi sig sjálf.
Sigríður segir að ummæli Úlfars dæmi sig sjálf. Samsett mynd

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir ummæli Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, um frekju hennar dæma sig sjálf. Telur hún ljóst að ummælin séu til komin vegna kyns hennar og að augljóslega sé hún talsmaður blaðamanna sem komi sjónarmiðum þeirra á framfæri.

Ummælin lét hann falla í viðtali við Vísi  eftir að fréttamenn RÚV slitu sig frá fréttamönnum annarra miðla í Grindavík í dag. Voru þeir þar í lögreglufylgd en lögregla hefur meinað fjölmiðlamönnum aðgengi að vissum stöðum í Grindavík sem íbúar hafa heimild til þess að fara á. Þannig hefur fréttamönnum meðal annars verið meinað að afla frétta hjá Grindvíkingum sem huga eru að eigum sínum.

Hafa blaðamenn lýst yfir óánægju með þessar aðgerðir lögreglustjóra á undanförnum vikum og mánuðum og hefur Blaðamannafélagið nú stefnt ríkinu vegna ákvörðunar Úlfars fyrir héraðsdóm. 

Blaðamönnum hefur verið haldið frá íbúum í Grindavík.
Blaðamönnum hefur verið haldið frá íbúum í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar setur í samtali við Vísi málið jafnframt í samhengi við það þegar starfsmaður RÚV barði hús að utan og leitaði að lykli að húsi í Grindavík. Það mál olli nokkru fjaðrafoki.

Úlfar dró ennfremur nafn Sigríðar Daggar inn í málið og benti á að hún væri starfsmaður RÚV, en hún er í launalausu leyfi um þessar mundir.

„Hún hefur sýnt sig í að vera svolítið frek,“ er haft eftir Úlfari í samtali við Vísi.

Kostulegt að tala með þessum hætti

Sigríður segir það kostulegt að maður í hans stöðu telji sig knúinn til að tala með þessum hætti um konu sem er fulltrúi Blaðamannafélagsins sem formaður.

„Eitt af megin hlutverkum okkar er að standa vörð um tjáningarfrelsið og að kalla það frekju dæmir sig svolítið sjálft,“ segir Sigríður Dögg.

Viltu þá meina að ummælin séu látin falla því þú sért kona? 

„Já ég held að karlmenn á þessum aldri detti oft í þann gír. En það er ekkert sem maður er ekki vanur,“ segir Sigríður Dögg.

Frekar yfirvöld sem vanvirði Grindvíkinga 

Úlfar segir ennfremur í samtali við Vísi að hátterni starfsmanna sem létu sig hverfa frá öðrum fréttamönnum í dag, og gera þurfti leit að, sé vanvirða við íbúa Grindavíkur.

„Ég veit svo sem ekki meira um málið en ég ímynda mér að RÚV hafi verið að reyna að ná fréttum. Það hlýtur að teljast frekar eðlilegt að blaðamenn geri þegar það ríkir svona ofboðsleg tregða hjá stjórnvöldum og umræddum lögreglustjóra að sýna því skilning hversu mikilvæg störf blaðamanna eru,“ segir Sigríður.

Hún segir engan blaðamann ætla að sýna Grindvíkingum lítilsvirðingu. „Þvert á móti myndi ég segja að blaðamenn væru að sýna atburðunum virðingu með því að vilja fjalla um atburðina á sómasamlegan hátt,“ segir Sigríður.

Hún segir það frekar til marks um lítilsvirðingu gagnvart Grindvíkingum að treysta þeim ekki til þess að meta það sjálfir hvort þeir vilji ræða við fjölmiðla.

Ber að standa vörð um tjáningarfrelsið

Blaðamannafélagið stefndi ríkinu í dag til þess að úrskurða um aðgengi blaðamanna að Grindavík og takmarkandi aðgerðir stjórnvalda. Að sögn Sigríðar hefur þegar verið sent erindi til Úlfars lögreglustjóra í nóvember til að spyrja um lagalegar forsendur aðgengistakmarkana. Eins var send kæra til dómsmálaráðuneytisins. Engin viðbrögð bárust í báðum tilfellum. Í framhaldinu var erindið til Úlfars ítrekað og rann frestur til viðbragða út í dag.

„Okkur ber sem fag- og stéttarfélag að standa vörð um jafn mikilvæg réttindi og tjáningarfrelsið er, sama hvað lögreglustjóranum á Suðurnesjum finnst um það og hvort hann líti á það sem frekju eða ekki,“ segir Sigríður Dögg.

Reynt var að hafa samband við Úlfar Lúðvíksson við vinnslu fréttarinnar en hann baðst undan viðtali. Vísaði hann þó í umfjöllun Vísis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka