Gömlum trébátum fargað á sjóminjasafni

Bátarnir voru dæmdir ónýtir og hættulegir bæði fólki og umhverfi.
Bátarnir voru dæmdir ónýtir og hættulegir bæði fólki og umhverfi. Ljósmynd/Safnahúsið á Húsavík

Á sjóminjasafni Þingeyinga hafa sex gamlir trébátar grotnað niður og hindrað að starfsemi safnsins geti farið fram á útisvæði. Bátarnir voru allir metnir ónýtir og hafði Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) hvorki fjármagn, mannafla né aðstöðu til að gera þá upp. Niðurstaðan varð því sú að farga þeim.Um er ræða stærstu grisjun sem farið hefur fram hér á landi á gömlum trébátum.

Sigríður Örvarsdóttir safnstýra segir að hætta hafi stafað af þeim bátum sem stóðu á útisvæði safnsins auk þess sem ekki var hægt að nýta dýrmætt útisvæðið á meðan bátarnir stóðu þar.

Áhugi þjóðarinnar ekki mikill

„Þetta sýnir okkur á hvaða stað þessi málaflokkur er. Áhugi þjóðarinnar á þessum málaflokki er ekki mikill svo það sé bara sagt. Það er búið að loka fyrir nám í bátasmíði og þekking á þessu handverki er að hverfa. Menningarverðmæti bátanna er mikið og til þess að varðveita form og handverk er búið að þrívíddarmynda bátana fyrir margar milljónir. Það eru því til nákvæmar eftirlíkingar ef til þess kemur að byggja þá aftur,“ segir Sigríður.

Ástandið það slæmt að engin leið var að endurbyggja þá

Spurð hvort einkaaðilar hafi ekki sýnt því áhuga að taka við bátunum og gera þá upp segir Sigríður að ein fyrirspurn hafi komið um að bjarga bátunum.

„Þegar það kom upp var málið svo langt komið að búið var að dæma alla bátana ónýta og ekki skynsamlegt að veita leyfi til einhvers sem búið er að biðja um förgun á vegna þess að það er ónýtt. Ákvörðunin var undirbúin með því að kalla til sérfræðinga til að meta ástand bátanna og leggja tillögu fyrir þjóðminjavörð. Niðurstaðan var sú að bátarnir væru ónýtir og hættulegir bæði fyrir fólk og ekki síður fyrir umhverfið vegna mengunar. Það hefði því verið mjög óábyrgt að senda bátana frá okkur og ekki kannski ljóst hvert markmiðið væri. Það þarf mikið að ganga á til þess að við förum þessa leið. Ástand bátanna var það slæmt að engin leið var að endurbyggja þá. Ef þeir duttu ekki í sundur þegar þeir voru hífðir upp þá lögðust þeir saman þegar þeir voru settir niður,“ segir Sigríður.

UNESCO með áhuga á trébátum

Sigríður bendir á að þótt áhugi þjóðarinnar á gömlum bátum fari minnkandi þá hafi UNESCO sett á skrá yfir óáþreifanlegan menningararf hefðbundna norræna trébáta, svokallaða súðbyrðinga.

Norðurlöndin stóðu sameiginlega að tilnefningunni en Vitafélagið hafði veg og vanda af undirbúningi hennar fyrir Íslands hönd.

2000 ára saga súðbyrðingsins

Morgunblaðið sagði frá því í desember 2021 þegar súðbyrðingur, smíði og notkun, komst á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, yfir óáþreifanlegan menningararf. Súðbyrðingur er sérstök norræn gerð báta, sem geta verið margvíslegir eftir svæðum, en aðferðin við smíði þeirra er sú sama á Norðurlöndunum.

Á vef Stjórnarráðsins segir um súðbyrðinginn: „Súðbyrðingur er sérstök norræn gerð báta, sem í tvö þúsund ár hefur skipt sköpum fyrir sjósókn Norðurlandanna. Súðbyrðingar geta verið margvíslegir eftir landsvæðum, en aðferðin við smíði þeirra er sú sama á Norðurlöndunum. Smíði þessara báta byggist á handverkshefð þar sem neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar fyrir neðan. Í upphafi voru borðin saumuð saman áður en trénaglar og síðar járn- og koparnaglar komu til sögunnar. Frá alda öðli hafa súðbyrðingar tengt saman samfélög stranda á milli, fært norrænar þjóðir út í heim og heiminn aftur til Norðurlandanna. Hefðin við smíði og notkun súðbyrðinga er meginþáttur strandmenningar okkar og er sameiginleg arfleifð Norðurlandanna.“

Menningarverðmæti bátanna eru mikil og til þess að varðveita form …
Menningarverðmæti bátanna eru mikil og til þess að varðveita form og handverk er búið að þrívíddarmynda bátanna fyrir margar milljónir. Ljósmynd/Safnahúsið á Húsavík
Súðbyrðingur er sérstök norræn gerð báta, sem í tvö þúsund …
Súðbyrðingur er sérstök norræn gerð báta, sem í tvö þúsund ár hefur skipt sköpum fyrir sjósókn Norðurlandanna. Ljósmynd/Vitafélagið
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert