Tilnefningar til Hagþenkis 2023

Höfundar þeirra tíu framúrskarandi rita sem tilnefnd eru til viðurkenningar …
Höfundar þeirra tíu framúrskarandi rita sem tilnefnd eru til viðurkenningar Hagþenkis að þessu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Tilkynnt hefur verið hvaða tíu bækur eru tilnefndar til Viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir útgáfuárið 2023. Viðurkenning Hagþenkis verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í mars og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1.250.000 króna verðlaunafé.

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina kæmu. Viðurkenningaráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, stendur að valinu, en það hóf störf um miðjan október og fundaði vikulega fram yfir miðjan janúar.

Viðurkenningaráð Hagþenkis er skipað fimm félagsmönnum til tveggja ára í senn og í því eru fyrir útgáfuárið 2023: Ársæll Már Arnarson, Halldóra Jónsdóttir, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, Sigurður Sveinn Snorrason og Unnur Þóra Jökulsdóttir en Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis sér um verkstjórn ráðsins. Þess má geta að laugardaginn 24. febrúar milli kl. 13 og 15 munu tilnefndir höfundar kynna ritin á Reykjavíkurtogi Borgarbókasafnsins í Grófinni.

Eftirfarandi höfundar og bækur eru tilnefnd í stafrófsröð höfunda. Með fylgir umsögn viðurkenningarráðsins:

  • Bára Baldursdóttir fyrir Kynlegt stríð – Ástandið í nýju ljósi sem Bjartur gefur út. „Merkileg greining á skjalasöfnum frá síðari heimsstyrjöld sem nýverið voru gerð aðgengileg. Höfundur afhjúpar skipulagðar njósnir hins opinbera um konur sem höfðu samneyti við hermenn.“
  • Gunnar Skarphéðinsson fyrir Dróttkvæði – Sýnisbók sem Skrudda gefur út. „Mikilvægt og einkar læsilegt safnrit um dróttkvæði með greinargóðum útskýringum sem auðvelda lesendum nútímans að skilja bakgrunn og sögulegt samhengi þessarar bókmenntagreinar.“
  • Haraldur Sigurðsson fyrir Sam­félag eftir máli – Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi sem Sögufélag gefur út. „Stórvirki um sögu skipulags og hönnunar byggðar á Íslandi, og á erindi við bæði lærða og leika. Höfundur byggir á gríðarmiklu magni heimilda sem hann greinir og setur í stærra samhengi.“
  • Helgi Máni Sigurðsson fyrir Fornbátar á Íslandi – Sjómennirnir og saga þeirra sem Skrudda gefur út. „Fróðleg kynning á bátasmíði og sjósókn í öllum landshlutum frá miðri 19. öld fram til 1950. Bókin byggist á heimildum um báta, eigendur þeirra og smiði. Hún er prýdd fjölda ljósmynda og teikninga.“
  • Kristín Loftsdóttir fyrir Andlit til sýnis sem Sögufélag gefur út. „Vandað verk um tilurð og sögu safna á tímum nýlenduvæðingar og kynþáttahyggju. Höfundur rekur slóð forvitnilegra safngripa og miðlar rannsókn sinni á myndrænan og persónulegan hátt.“
  • Lilja Árnadóttir og Mörður Árnason (ritstjórar) fyrir Með verkum handanna – Íslenskur refilsaumur fyrri alda sem Þjóðminjasafn Íslands gefur út. „Óvenju glæsilegt verk sem kynnir stórkostleg textílverk sem unnin voru á Íslandi fyrr á öldum og skipa sess í alþjóðlegu samhengi. Byggist á viðamiklum rannsóknum Elsu E. Guðjónsson.“
  • Ólafur Gestur Arnalds fyrir Mold ert þú – Jarðvegur og íslensk náttúra sem Iðnú gefur út. „Stórvirki á sviði náttúru- og umhverfisfræði með áherslu á sérstöðu íslensks jarðvegs. Fjallað er ýtarlega um mikilvægi moldarinnar í vistkerfum þurrlendis með ríkulegum gögnum og myndefni.“
  • Ólafur Engilbertsson (ritstjóri) fyrir Steyptir draumar – Líf og list Samúels Jónssonar sem Sögumiðlun gefur út. „Mikilvæg útgáfa um líf og list merkilegs utangarðslistamanns og endurreisn einstakrar arfleifðar. Líflegt myndefni og vandaður texti.“
  • Sveinn Einarsson fyrir Leikmenntir – Um að nálgast það sem mann langar að segja í leikhúsi sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. „Leikhússaga síðustu aldar er rauður þráður bókarinnar sem fjallar um form, stíl, orðfæri og fleira tengt leiksviðinu. Verkið er mikilvæg viðbót við sögu íslenskrar leiklistar, og lýsir vel þeim galdri sem gerist þegar sýningar eru settar upp.“
  • Þórgunnur Snædal fyrir Rúnir á Íslandi sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur út. „Ýtarlegt og aðgengilegt yfirlitsrit um íslenska rúnasögu, sem varpar ljósi á hefð sem hélst frá landnámi til okkar daga. Afrakstur áratugalangra rannsókna höfundarins.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert