Mesti sinueldur í Íslandssögunni

Bændur og slökkviliðsmenn börðust í þrjá sólarhringa við mikla sinuelda …
Bændur og slökkviliðsmenn börðust í þrjá sólarhringa við mikla sinuelda sem loguðu á Mýrum. mbl.is/RAX

Mesti sinueldur sem þekktur er hér á landi kviknaði á Mýrum í Borgarfirði að morgni fimmtudagsins 30. mars 2006.

Eldurinn geisaði með hléum í þrjá sólarhringa og fór alls yfir 72 ferkílómetra landsvæði, en áætlað var að meðalhraði eldtungunnar hefði verið um 3,2 km á klukkustund þegar mest var. Slökkvistarf tókst giftusamlega og lítið sem ekkert eignatjón varð í eldunum.

Lögreglan í Borgarnesi fékk tilkynningu um eldinn um kl. 9 um morguninn og voru upptök hans við Snæfellsnesveg við bæinn Fíflholt. Lögreglan taldi að einhver hefði hent logandi sígarettu í grasið með þessum afleiðingum.

Aldrei séð annað eins

„Reykurinn var biksvartur og sólin var eins og eldrauður hnöttur. Það var dimmt í dag og ég hef aldrei séð annað eins,“ sagði Unnsteinn Jóhannsson bóndi í Laxárholti í samtali við Morgunblaðið sem birtist 31. mars.

Þar segir að í ljósaskiptunum kvöldið áður hafi Unnsteinn verið ásamt liði sínu á leið að eldlínunni til að troða niður óbrunnin svæði með dráttarvélum til að hindra að reykurinn bærist yfir að bænum.

Ekki urðu slys á fólki eða skepnum en 70 kúm á Laxárholti stóð ógn af eldinum sem var allt í kringum bæinn. Eldveggurinn var geysihár, allt að fjórir metrar.

Ein ástæða þess að eldurinn varð eins magnaður og raun bar vitni var sú að lítið er beitt á svæðunum og eldsmatur því gríðarlegur.

Áætlað var að meðalhraði eldtungunnar hefði verið um 3,2 km …
Áætlað var að meðalhraði eldtungunnar hefði verið um 3,2 km á klukkustund þegar mest var. Kort/mbl.is

Eldurinn átti eftir 10 metra að húsunum

Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi, líkti ástandinu við náttúruhamfarir og kvað lítið hægt að gera til að slökkva eldinn, sem var það mikill að hann sást til Akraness og hringdu íbúar í bænum í slökkvilið til að spyrja hvað væri að gerast.

Það tókst að hindra að eldur kæmist í tvö nýleg íbúðarhús í Skíðsholtum, en eldurinn átti eftir 10 metra upp að húsunum þegar tókst að stöðva framrás hans.

Guðjón Kristjánsson bóndi í Skíðsholtum sagði við Morgunblaðið að um kvöldið hefði skíðlogað enn á 20-30 km löngum kafla.

Lágt í haughúsunum í dag

Eftir tveggja sólarhringa baráttu við eldinn var talið að tekist hefði að ráða niðurlögum hans. Bjarni slökkviliðsstjóri sagði þá við Morgunblaðið að allt að 100 manns hefðu unnið að slökkvistarfi þegar mest var.

„Við fengum þyrlu frá Þyrluþjónustunni með þúsund lítra mál neðan í sér sem hún dýfði í næstu tjörn eða vog við ströndina og flaug síðan yfir brunasvæði. Þetta hefur alveg ótrúlegan slökkvimátt. Það var enginn slökkviliðsmaður um borð heldur flugmaður sem kunni sitt fag.

Hann sló á eldjaðarinn við Hundastapa, sem við vorum mjög hræddir um enda mikið í húfi fyrir ábúendurna með sitt gríðarstóra kúabú. Bændurnir voru líka kjarkaðir og áræðnir. Þeir keyrðu vatni á eldinn og svo var líka hlandforin og kúamykjan alveg ótrúlega góður slökkvimiðill. Eins og ég segi, það er víða orðið lágt í haughúsum í dag."

Eldur blossaði upp á ný

En eldur blossaði upp á ný aftur síðdegis laugardaginn 1. apríl við bæinn Ánastaði. „Menn héldu nú að þeim hefði tekist að komast fyrir eldinn en hann lifir lengi í mó og þegar fór að kula á laugardag varð af litlum neista mikið bál eins og oft vill verða,“ sagði Bjarni Þorsteinsson við Morgunblaðið.

Hættan hefði verið sú að eldurinn færi yfir Akraveginn, frá Hrafnkelsstöðum að Hundastapa. Því var vegurinn rennbleyttur allan daginn og sömuleiðis öxlin ofan við veginn.

„Það gerði gæfumuninn og því barst eldurinn ekki niður fyrir veg því annars hefði hann getað farið yfir Álftá. Hún er á ís núna svo að það hefði getað feykst glóð yfir hana og þá hefði allur Álftaneshreppurinn brunnið.

Ég hefði ekki boðið í það. Til þess að ganga milli bols og höfuðs á helvítinu náðum við okkur í jarðýtu og flettum sverðinum í sundur og stöðvuðum eldinn milli Hrafnkelsstaða og Ánastaða,“ sagði Bjarni. „Þetta var erfitt en menn eru ekki þekktir fyrir að gefast upp hér á Mýrunum.“

Það brann sina víðar á landinu þessa daga, þar á meðal í Reykholtsdal og Skorradal, við Esjuberg á Kjalarnesi, í Elliðaárdal og við Hrafnistu í Hafnarfirði.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert