Áhrif sinueldanna á Mýrum á náttúru rannsakaðir næstu fimm árin

Gríðarlega stórt svæði varð eldinum að bráð á Mýrum um …
Gríðarlega stórt svæði varð eldinum að bráð á Mýrum um mánaðarmótin mars/apríl. mbl.is/RAX

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur unnið tillögu að rannsóknaráætlun á áhrifum sinueldanna á Mýrum á náttúru og lífríkið, í samvinnu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Háskóla Íslands. Þetta var gert að frumkvæði Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra. Að sögn Sigríðar Önnu er áætlunin til fimm ára og mun heildarkostnaðurinn nema 60 milljónum kr. Þar af mun ríkið greiða á bilinu 20-25 milljónir kr.

Sigríður Anna segir að rannsóknin muni beinast m.a. að því hvernig náttúran hagar sér í kjölfar eldanna. Rannsóknin mun taka til fuglalífs, gróðurs og annars lífríkis á svæðinu.

Gert er ráð fyrir því að rannsóknin muni kosta 73 milljónir kr. í heildina. Sigríður Anna bendir hinsvegar að á ráðuneytið hafi tekið þá ákvörðun að rannsóknir á hagamúsum verði tekin út, en kostnaðurinn við hana nemur 13 milljónum kr. Heildarkostnaðurinn verði því 60 milljónir.

Hún segir að ætlast sé til þess að allar stofnanirnar leggi sjálfar framlag til verkefnisins, þ.e. í formi starfsmanna og vinnuframlags.

Sigríður Anna segir að á þessu ári muni verkefnið kosta 24,5 milljónir kr., þar af muni ríkisstjórnin tryggja fjármuni á fjáraukalögum upp á 8,3 milljónir. „Ég tel að þetta sé mjög brýnt og nauðsynlegt verkefni að ráðast í,“ segir Sigríður Anna og bætir því við að það sé mjög brýnt að byrjað verði strax á verkefninu, þ.e. strax núna í júní.

Sigríður Anna bendir á að til séu gróðurfarsrannsóknir á umræddu svæði, þ.e. svæðið hafi verið kortlagt fyrir um 10 árum. Með því fáist samanburður við nýjar rannsóknir. „Þetta myndi varpa ljósi á umhverfisáhrif af svona sinubrunum. Þetta er stærsti bruni af því tagi sem heimildir eru um hér á landi. Þá myndi þetta upplýsa okkur um áhrif sinuelda á gróður og dýralíf, og hversu lengi þau myndu vara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert