Peningaþjófnaður á Raufarhöfn

Gamla kaupfélagshúsið á Raufarhöfn þar sem peningaskápnum var stolið.
Gamla kaupfélagshúsið á Raufarhöfn þar sem peningaskápnum var stolið. raufarhofn.net

Það var líflegt á Raufarhöfn á Melrakkasléttu um miðja síðustu öld, síldarævintýrið í fullum gangi og mikil umsvif í plássinu.

Raufarhöfn var á fimmta áratugnum talin vera annar mesti síldveiðibær landsins á eftir Siglufirði og í byrjun sjöunda áratugarins var Raufarhöfn stærsta síldarútflutningshöfn á Íslandi, söltunarstöðvar í bænum voru þá ellefu talsins.

Þegar mest var á síldarárunum voru fastir íbúar taldir vera í kringum 500 og á sumrin gat talan farið upp í tvö þúsund þegar starfsfólk við síldarsöltun og sjómenn voru talin með.

Dágóð upphæð á þessum tíma

En sagan sem hér verður sögð á eftir fjallar ekki um síld. Morgunblaðið sagði frá því miðvikudaginn 11. október árið 1950 að norður á Raufarhöfn hefði verið framinn einn mesti peningaþjófnaður sem um geti hér á landi. Brotist var inn í útibú Kaupfélags Norður-Þingeyinga í skjóli myrkurs og bleytuhríðar helgina áður og peningaskápur, sem í voru rúmlega 100 þúsund krónur í reiðufé, tæmdur.

Þetta var dágóð upphæð á þessum tíma. Miðað við verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands má ætla að hún samsvari á áttundu milljón króna nú.

Morgunblaðið sagði að starfsmenn kaupfélagsins hafi ekki orðið varir við þjófnaðinn fyrr en þeir hófu vinnu á skrifstofunni eftir helgina en þar hafi verið lítil vegsummerki. Innbrotið hafi verið framið þannig að þjófurinn eða þjófarnir hafi brotist inn í vörugeymsluhúsið og með því að stinga upp nokkrar hurðir tekist að komast inn í skrifstofu kaupfélagsins. Þar var 200 punda peningaskápur, og auk peninganna voru í skápnum útlánsvíxlar Sparisjóðs Raufarhafnar, en afgreiðsla hans var einnig í húsinu, frumbækur kaupfélagsins og fleiri skjöl. Um 40 þúsund krónur af því reiðufé sem var í skápnum voru í eigu sparisjóðsins.

Blaðið segir að skápurinn hafi verið borinn út úr skrifstofunni og sennilega um dyr sem snéru að bryggju kaupfélagsins en þar hafi þjófarnir látið peningaskápinn falla í sjóinn eftir að hafa tekið allt úr honum. Skápurinn fannst í fjörunni á mánudagsmorguninn. Kom í ljós að hjarir höfðu verið sagaðar af honum og hurðin var horfin. „Hafði bersýnilega enginn viðvaningur verið að verki,“ segir Morgunblaðið.

Í fréttinni segir að nóttina sem peningaskápnum var stolið hafi verið á Raufarhöfn eitt versta veður sem komið hafi um haustið og gengið á með snörpum slydduéljum en ekki festi snjóinn svo sporrækt væri. „Svartamyrkur var í bænum sem venja er til á nóttum þar, því allt rafmagn er tekið af þegar komið er fram yfir lágnætti,“ segir blaðið.

Lögregla send að sunnan

Morgunblaðið segir næstu daga fréttir af rannsókn málsins. Sakadómaraembættið í Reykjavík sendi Svein Sæmundsson yfirlögregluþjón og Axel Helgason fingrafarasérfræðing til Raufarhafnar til að vinna að rannsókninni í félagi við Júlíus Havsteen sýslumann í Þingeyjarsýslu og starfsmenn hans. Fram kemur að í því sambandi hafi verið tekið upp mjög strangt eftirlit með öllum ferðum fólks og flutningi á varningi. Tveir menn hafi verið settir í gæsluvarðhald. Síðar kom fram að annar þeirra hafði m.a. vakið á sér grun með því að fara höndum um peningaskápinn eftir að honum hafði verið bjargað á land og þrátt fyrir aðvaranir um að snerta ekki á honum. Ekki kom fram í fréttum frá þessum tíma hvers vegna hinn maðurinn var færður í gæsluvarðhald.

Morgunblaðið sagði að allir bílar, hvort heldur það væru vörubílar eða fólksbílar, sem þyrftu út fyrir þorpið væru grandskoðaðir af sérstökum vörðum. Eins væru föggur manna skoðaðar. „Og í gærdag var sendur póstur frá Raufarhöfn og voru bréfin athuguð, þó ekki rifin upp, nema þau er þóttu eitthvað grunsamleg, t.d. munu krossbandssendingar hafa verið opnaðar,“ segir blaðið.

Ekkert fannst við þessa leit, hvorki skjöl sem voru í peningaskápnum né hurðin að honum. Þá var leitað að járnsög sem fullsannað þótti að væri notuð til að opna skápinn og einnig var leitað að sporjárni sem þjófurinn notaði til að brjóta upp hurðir í húsinu. Þegar veðrið batnaði var hafin skipulögð leit að peningunum en talið var fullvíst að þeir væru geymdir einhvers staðar úti við.

Af blaðafréttum má ráða að þjófnaðurinn hafi haft í för með sér að peningaleysi var á Raufarhöfn. Margir hafi átt fé geymt í sparisjóðnum, sem þeir ætluðu að greiða með skuldir og aðrir höfðu fengið fyrirheit um lán, sem ekki var hægt að veita. Þá olli hvarf frumbóka kaupfélagsins nokkrum vandræðum því þar voru upplýsingar skráðar um viðskipti frá mánaðamótunum á undan og ekki var búið að færa úr þeim inn á viðskiptareikninga.

Í vikunni á eftir segir Morgunblaðið að stöðugt sé unnið að rannsókn þjófnaðarins án þess að nokkur hafi verið handtekinn. Hafi velflestir karlmenn á Raufarhöfn verið yfirheyrðir en fram hafi komið að enginn Raufarhafnarbúi telji sig hafa orðið varan við mannaferðir nóttina sem þjófnaðurinn var framinn. Og í nærsveitum Raufarhafnar urðu menn ekki varir við neinar óvenjulegar ferðir manna.

Í Morgunblaðinu 20. október segir að áfram hafi fólk verið tekið til yfirheyrslu og enn sé leitað að skáphurðinni, sem líklega hafi verið grafin í jörð og stöðugt eftirlit sé haft með flutningi öllum frá þorpinu og bílar rannsakaðir. „Þær vonir, um að fingraför kynnu að finnast, hafa alveg brugðist,“ segir blaðið og bætir við að enn sé einn maður í gæsluvarðhaldi. Þann 22. október segir Morgunblaðið að rannsóknarlögreglumennirnir frá Reykjavík séu farnir heim með strandferðaskipinu Heklu en sýslumaður vinni enn að rannsókn málsins. Manninum, sem sat í gæsluvarðhaldi, hafði þá verið sleppt.

Leitað í öllum húsum

En daginn eftir dró til nokkurra tíðinda. Þá var efnt til borgarafundar á Raufarhöfn þar sem þjófnaðarmálið var til umræðu. Morgunblaðið segir að um hundrað manns hafi verið á fundinum og þar var samþykkt að efna til þjófaleitar daginn eftir. Yrði leitað bæði úti og eins í húsum manna og myndi Júlíus Havsteen sýslumaður stjórna þjófaleitinni.

Blaðið segir síðan frá því 26. október að fjölmenn leit hafi farið fram um allt nágrenni Raufarhafnar og sex þriggja manna flokkar hafi leitað í öllum íbúðarhúsum þorpsins samkvæmt ósk og samþykki allra húsráðenda. Skemmst er frá því að segja, að leitin bar engan árangur.

Punktur var síðan settur aftan við málið í Morgunblaðinu 29. október. Þar kemur fram að hlé hafi verið gert á rannsókn stórþjófnaðarins á Raufarhöfn. Sýslumaður Þingeyinga og fulltrúi hans hafi haldið til Húsavíkur daginn áður og óákveðið sé hvenær rannsókninni verði haldið áfram. Við það sat og þjófnaðurinn er óupplýstur enn í dag.

Sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslu – Milt og góðviljað yfirvald

Júlíus Havsteen sýslumaður, sem stýrði rannsókninni á Raufarhöfn, var þjóðþekktur maður á sinni tíð. Hann þótti milt yfirvald og sagt var að hann hefði gjarnan farið þá leið sem mýkri var ef tvær voru í boði.

Af honum eru til ýmsar sögur. Í grein sem Sigurjón Jóhannesson skrifaði í Morgunblaðið árið 1986 í aldarminningu um Júlíus eru nokkrar þeirra raktar og segir Sigurjón að í þeim speglist mildi dómarans og þær beri vitni um góðvild og hjartagæsku.

Ein sagan er eftirfarandi:

Eitt sinn komu brúðhjón úr Reykjadal til Húsavíkur til að láta vígja sig saman. Voru orðin vel fullorðin. Á leiðinni sat brúðurin inni hjá bílstjóra en brúðguminn sat uppi á vörupalli. Norðansteytingur var og svalt.

Þegar til Húsavíkur kom gengu brúðhjónin á fund Júlíusar sem hafði orð á því hve brúðguminn liti kuldalega út. En þá kvaðst hann hafa hírst uppi á bílpalli þar sem bannað væri samkvæmt lögum að hafa nema einn farþega hjá bílstjóra.

Er hjónavígslunni lauk og brúðhjónin höfðu drukkið kaffi hjá sýslumannshjónunum spurði Júlíus brúðgumann hvernig hann ætlaði að hafa það á leiðinni heim.

„O, ætli maður verði ekki að hírast aftur á pallinum,“ sagði hann.

„Nei Kristján minn, nú hefi ég fundið vörn í málinu,“ kvað sýslumaður, „ég er búinn að gefa ykkur saman og þið eruð orðin eitt fyrir guði og mönnum. Nú situr þú undir brúði þinni inni hjá bílstjóra á leiðinni heim.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert